Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar...

33
1 Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen með eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason Í þessu kveri mun ég freista þess að skýra hlutverk heimspekinnar í þeim tilgangi að lesturinn gagnist þeim sem fást við kennslu á grunnskólastigi. Hvort sem þeir fást við kennslu heimspeki eða annarra greina ætti þeim að verða ljósir möguleikar heimspekilegra aðferða í allri kennslu. Það skal fram tekið að hér verður að litlu eða engu leyti farið út í það hvernig eigi að kenna heimspeki heldur farið orðum um viðfangsefni heimspekilegrar hugsunar. Mér er ljóst að heiti kversins, Hlutverk heimspekinnar, kann að virka upphafið og jafnvel fráhindrandi fyrir þann sem aldrei hefur komist í tæri við heimspeki áður. Til er ágætis skilgreining á hlutverki heimspekinnar sem hljóðar svo: Hvers vegna skyldu menn sem verja mestum tíma sínum í að hugleiða torráðnustu gátur tilverunnar endilega hafa vit og áhuga samfélagsmálum? Hvers vegna skyldi heimspekingurinn, fangi sem losnar úr hlekkjunum, kemst upp í dagsbirtuna og nýtur veruleikans sem hann sér, snúa aftur niður í rökkvaðan hellinn til að gerast leiðtogi fanganna? Sú staðreynd að Platon telur heimspekinginn eiga erindi niður í hellinn aftur hefur sett varanlegt mark á alla hugsun okkar um hlutverk heimspekinnar. 1 Ekki er víst að allir taki fullum fetum undir þessa fullyrðingu og sérhver heimspekingur ætti ef til vill að setja sér það verkefni að sannreyna – og gagnrýna ef hægt er – allar slíkar kenningar út frá sinni eigin hugsun og reynslu en ekki eingöngu mynda sér skoðanir á grundvelli dauðrar þekkingar. 2 Markmið mitt með þessu kveri er að búa til nokkurs konar áttavita fyrir áhugafólk um heimspeki og heimspekilega samræðu sem kennsluaðferð. Í neðanmálsgreinum bendi ég á frekari lesefni þegar við á. Í lok skjalsins eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu kveri verður leitað svara við eftirfarandi spurningum: 1 Eyjólfur Kjalar Emilsson. (1997). „Inngangur“ í Platon. Ríkið. Fyrra bindi. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls. 9-10. 2 Ég sæki hugtakið „dauða þekkingu“ til Nönnu Hlínar Halldórsdóttur (einkasamtal) út frá öðru, „lifandi þekkingu“, sem teflt er fram gegn því og mætti útskýra þannig að lifandi heimspeki er ætlað að leggja eitthvað til málanna og hafa áhrif á heiminn eða samfélagið hér og nú. Dæmi um dauða þekkingu væri hins vegar ráðstefna eða ritgerð um rannsóknir einhvers látins fræðimanns sem einungis gagnast þröngum hópi áhugamanna um hið tiltekna efni. Ég þakka Nönnu Hlín fyrir að kynna mér fyrir þessum hugtökum. Mér finnst gagnverkun þeirra varpa ljósi á kennslufræðilegan vanda sem bíður úrlausnar, og að lausnin felist ekki í að annað útiloki hitt heldur í nokkurs konar samspili beggja. Þá má bæta því við að samkvæmt Nönnu Hlín sé lifandi þekking að geta speglað hugmyndunum sem maður er að glíma við á sitt eigið líf. Spurningin er þá: Hvernig gerum við það í kennslu? Hvernig nálgumst við hugmyndirnar þannig að nemendur tengi við þær en lesi þær ekki sem dauðan staf upp á töflu (Nanna Hlín Halldórsdóttir, 2012).

Transcript of Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar...

Page 1: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

1

Hlutverk heimspekinnar

eftir Kristian Guttesen

með eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason

Í þessu kveri mun ég freista þess að skýra hlutverk heimspekinnar í þeim tilgangi að lesturinn gagnist

þeim sem fást við kennslu á grunnskólastigi. Hvort sem þeir fást við kennslu heimspeki eða annarra

greina ætti þeim að verða ljósir möguleikar heimspekilegra aðferða í allri kennslu. Það skal fram tekið að

hér verður að litlu eða engu leyti farið út í það hvernig eigi að kenna heimspeki heldur farið orðum um

viðfangsefni heimspekilegrar hugsunar. Mér er ljóst að heiti kversins, Hlutverk heimspekinnar, kann að

virka upphafið og jafnvel fráhindrandi fyrir þann sem aldrei hefur komist í tæri við heimspeki áður. Til er

ágætis skilgreining á hlutverki heimspekinnar sem hljóðar svo:

Hvers vegna skyldu menn sem verja mestum tíma sínum í að hugleiða torráðnustu gátur

tilverunnar endilega hafa vit og áhuga samfélagsmálum? Hvers vegna skyldi heimspekingurinn,

fangi sem losnar úr hlekkjunum, kemst upp í dagsbirtuna og nýtur veruleikans sem hann sér, snúa

aftur niður í rökkvaðan hellinn til að gerast leiðtogi fanganna? Sú staðreynd að Platon telur

heimspekinginn eiga erindi niður í hellinn aftur hefur sett varanlegt mark á alla hugsun okkar um

hlutverk heimspekinnar.1

Ekki er víst að allir taki fullum fetum undir þessa fullyrðingu og sérhver heimspekingur ætti ef til vill að

setja sér það verkefni að sannreyna – og gagnrýna ef hægt er – allar slíkar kenningar út frá sinni eigin

hugsun og reynslu en ekki eingöngu mynda sér skoðanir á grundvelli dauðrar þekkingar.2 Markmið mitt

með þessu kveri er að búa til nokkurs konar áttavita fyrir áhugafólk um heimspeki og heimspekilega

samræðu sem kennsluaðferð. Í neðanmálsgreinum bendi ég á frekari lesefni þegar við á. Í lok skjalsins

eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað

verður um. Í þessu kveri verður leitað svara við eftirfarandi spurningum:

1 Eyjólfur Kjalar Emilsson. (1997). „Inngangur“ í Platon. Ríkið. Fyrra bindi. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls. 9-10. 2 Ég sæki hugtakið „dauða þekkingu“ til Nönnu Hlínar Halldórsdóttur (einkasamtal) út frá öðru, „lifandi þekkingu“, sem teflt er fram gegn því og mætti útskýra þannig að lifandi heimspeki er ætlað að leggja eitthvað til málanna og hafa áhrif á heiminn eða samfélagið hér og nú. Dæmi um dauða þekkingu væri hins vegar ráðstefna eða ritgerð um rannsóknir einhvers látins fræðimanns sem einungis gagnast þröngum hópi áhugamanna um hið tiltekna efni. Ég þakka Nönnu Hlín fyrir að kynna mér fyrir þessum hugtökum. Mér finnst gagnverkun þeirra varpa ljósi á kennslufræðilegan vanda sem bíður úrlausnar, og að lausnin felist ekki í að annað útiloki hitt heldur í nokkurs konar samspili beggja. Þá má bæta því við að samkvæmt Nönnu Hlín sé lifandi þekking að geta speglað hugmyndunum sem maður er að glíma við á sitt eigið líf. Spurningin er þá: Hvernig gerum við það í kennslu? Hvernig nálgumst við hugmyndirnar þannig að nemendur tengi við þær en lesi þær ekki sem dauðan staf upp á töflu (Nanna Hlín Halldórsdóttir, 2012).

Page 2: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

2

Hvað er heimspeki? (Bls. 2)

Hvað er siðfræði? (Bls. 5)

Hvað er frumspeki? Hvað er þekkingarfræði? (Bls. 13)

Hvað er rökfræði? (Bls. 18)

Hvað er heimspeki?3

„Heimspeki er glíman við grundvallarspurningar um veruleikann, tilvist og stöðu mannsins í

alheiminum.“4 Þannig gæti eitt svar við ofangreinda spurningu hljóðað. Annað svar við henni gæti verið:

Heimspeki felst í því að hugsa og um leið að hugsa um hugsunina. Enn önnur leið til að svara

spurningunni væri að fjalla svolítið um þær spurningar sem heimspekingar hafa fengist við í gegnum

aldirnar og þær aðferðir sem þeir hafa beitt í þeirri glímu. Til að svara spurningunni hvað heimspeki sé

þarf raunar að fjalla um allar þessar hliðar og e.t.v. fleiri til. Þegar nemendum er kynnt heimspeki í fyrsta

sinn í grunn- eða framhaldsskóla vilja þeir auk þess í mörgum tilfellum vita að hvaða gagni hún komi. Þá

er ekki óalgengt að þeir spyrji: „Til hvers þurfum við að vita þetta?“ Sú spurning er ekki alvitlaus. Vandinn

er hins vegar sá að þegar kemur að ástundun heimspeki er það sama upp á teningnum með seinni

spurninguna og þá fyrri: Við henni er ekkert eitt ákveðið svar. Og ungt fólk er yfirleitt þannig gert og

ekkert öðruvísi en annað fólk, að það vill helst fá skýr svör við einföldum spurningum. En þegar kemur að

heimspeki er staðreyndin sú að ávinningurinn felst í glímunni við spurningunni, ekki í svarinu. Og það

sem meira er, oft á tíðum búumst við ekki við að finna ákveðin svör. Heimspeki er rannsókn á

möguleikum.5 Hér á eftir ætla ég að fara þriðju leiðina, sem ég nefndi hér efst, í því að svara fyrstu

spurningunni hvað er heimspeki? og fjalla örlítið um heimspekinginn Aristóteles (384–322 f.Kr.) og

nokkur grunnstef heimspekinnar sem rekja má til hans og helstu fyrirrennara hans. Þessi umfjöllun er

ekki tæmandi og einungis hugsuð sem almenn kynning fyrir kennara, nema og áhugamenn um

heimspeki og heimspekikennslu.6

3 Áhugasömum er bent á samnefnt greinasafn í ritstjórn Ármanns Halldórssonar og Róberts Jack. (2001). Hvað er heimspeki? – tíu greinar frá tuttugustu öld. Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. 4 Páll Skúlason. (1995). Í skjóli heimspekinnar. Reykjavík: Háskólaútgáfan, bls. 7. 5 Hér haft eftir Hrein Pálsson í viðtali við Róbert Jack. (2011). Barnaheimspeki er rannsókn á möguleikum. Sótt 25. júní 2012 af vef verkefnisins Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum, http://gagnryninhugsun.hi.is/?p=886. Í meðförum Hreins á skilgreiningin, eins og titillinn gefur til kynna, reyndar við um barnaheimspeki en engu að síður má einnig heimfæra hana á heimspeki. 6 Áhugasömum er bent á inngang Svavars Hrafns Svavarssonar að riti Aristótelesar. (1995). Í Þorsteinn Hilmarsson (ritstj.), Siðfræði Níkomakkosar (þýð. Svavar Hrafn Svavarsson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls. 11-91. Einnig er bent á eftirfarandi yfirlit um Aristóteles: Ólafur Jens Pétursson. (1985). Hugmyndasaga. Reykjavík: Mál og menning, bls. 56-68; Vilhjálmur Árnason. (1990). Þættir úr sögu siðfræðinnar. Reykjavík: Háskóli Íslands, bls. 18-26. Í eftirfarandi yfirliti sæki ég að einhverju leyti til þessara heimilda.

Page 3: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

3

Aristóteles nam og kenndi um alllangt skeið við skóla Platons (427–347 f.Kr.), Akademíu, eða frá árinu

367 f.Kr. til dauða læriföður síns. Eftir það ferðaðist hann í rúman áratug um Litlu-Asíu og stundaði

náttúrurannsóknir. Á þessu tímabili varði hann einum vetri, 343–342 f.Kr., við að mennta son

Makedóníukonungsins Filippusar II (382–336 f.Kr.), hinum unga Alexander (356–323 f.Kr.). Ári eftir að

Alexander tók við ríkidæmi föður síns, sem hafði verið myrtur, stofnaði Aristóteles skólann Lykeion í

Aþenuborg eða árið 335 f.Kr. Mun hann hafa verið starfræktur í einhverri mynd í um 600 ár (Morison,

2001). Af rannsóknum Aristótelesar er það að segja að honum var ekkert óviðkomandi. Hann lagði m.a.

stund á rannsóknir á náttúrufræði, frumspeki, rökfræði, líffræði og sálarfræði, jörðinni og alheiminum og

siðfræði og stjórnmálum, svo eitthvað sé nefnt.

Þegar ég kynni heimspeki í skóla eða kenni í fyrsta skipti, hvort sem það er í grunn- eða framhaldsskóla,

byrja ég iðulega á kynningu sem inniheldur framangreind atriði að einhverju eða öllu leyti. Það er, ég

fjalla um heimspeki í víðu samhengi. Síðan í sögulegu samhengi þar sem ég reifa þátt Aristótelesar í að

leggja grunn að flokkun undirgreina og viðfangsefna hennar. Því næst beini ég sjónum að einhverri

tiltekinni fræðigrein, t.d. rökfræði eða siðfræði og segi fyrst frá umfjöllun Aristótelesar um hana og reyni

síðan að setja hana í eitthvert samhengi við samtímann. Þannig tel ég að nemendur geti öðlast

skiljanlegt sjónarhorn á efnið. Í tilfelli rökfræðinnar gæti þetta sjónarhorn snúist um gagnrýna hugsun í

þjóðmálaumræðunni (og samband hugsunar við tungumálið) en í tilfelli siðfræði snerist það ef til vill um

borðspil og / eða tölvuleiki.

Einhverjum kann að sýnast að hér sé verið að gjaldfella háleit málefni og einfalda þau um of, en

staðreyndin er sú að þegar nemendur hafa öðlast „sitt“ sjónarhorn á efnið er þeim oftast meira tamt að

kafa dýpra ofan í efnið en maður hefði nokkurn tímann getað séð fyrir.

Stundum fer vel á að tvinna þessar undirgreinar saman og er til dæmis hægt að útskýra

sálarfræði þannig að hún snúi að einstaklingnum og leit hans að hamingju en hana öðlist hann einungis á

sviði siðfræði þar sem einstaklingurinn leitast við að sætta þær öfgar, sem einkenna hann, í samfélagi við

aðra. Hér er að sjálfsögðu verið að fjalla um hugðarefni Aristótelesar af nokkurri einföldun, en einhvers

staðar er nauðsynlegt að hefjast handa. Við getum hugsað okkur sálina sem hljóðfæri. Sérhver

einstaklingur reynir að stilla þetta hljóðfæri. Sé sálin í jafnvægi, þá er einstaklingurinn hamingjusamur.

Það sem vanstillir sálina eru öfgar og því þarf einstaklingurinn í hvívetna að finna meðalhóf tveggja öfga.

Sem dæmi er hugprýði meðalhóf fífldirfsku og ragmennsku, sómatilfinning er meðalhóf metorðagirndar

og kæruleysis og örlæti er meðalhóf óhófs og nísku. Þessir eiginleikar, sem hér eru nefndir meðalhóf,

kallar Aristóteles „dygðir“. Af ofansögðu þarf maðurinn á samfélagsskipan að halda þar sem hann ræktað

sínar dygðir og öðlast sem mesta hamingju. Í upphafi rits Aristótelesar, Siðfræði Níkomakkosar, segir:

Page 4: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

4

„Allar athafnir mannsins beinast að einhverjum gæðum sem eru misjafnlega endanleg. Sérhver list og

rannsókn, sérhver athöfn og val, virðist stefna að einhverju góðu. Því var hinu góða vel lýst sem

markmiði alls.“7 Þessi grunnhugsun fangar nokkuð vel þar sem hér hefur verið rætt.

Ljósmynd: Björn Gíslason

Spurningin sem lagt var upp með rúmast á sínu eigin sviði, hún er m.ö.o. heimspekileg. Sagt er að sumar

spurningar séu það ekki. Dæmi um slíka spurningu væri: „Hvað er klukkan?“, „Hvernig fór landsleikurinn í

gær?“, „Geturðu lánað mér sykur?“. Allt eru þetta tæmandi spurningar eða staðreyndaspurningar. Þær

skilja lítið eða ekkert eftir. Þegar við fáumst við heimspeki glímum við, eins og hér hefur verið gefið til

kynna, við opnar spurningar eða spurningar sem hafa mörg hugsanleg svör eða stundum ekkert svar.

Þær skilja eitthvað eftir. Eitthvað sem spyrjandinn heldur áfram að glíma við. Heimspeki er því að reyna

7 Aristóteles. (1995: 1094a1).

Dagana 11. – 15. júní 2012 kenndi undirritaður heimspeki við Háskóla unga

fólksins, ásamt Ylfu Björgu Jóhannesdóttur. Ljósmyndin á síðunni hér á undan var

tekin af töflu í tíma, þar sem markmið námskeiðsins var að nemendur notuðu

hugmyndir Aristótelesar um samfélagið til að búa til leik eða spila eftir eigin höfði.

Þegar myndin var tekin hafði ég farið nokkrum orðum um þau atriði sem nefnd eru

hér að framan, á bls. 2-3. Að auki höfðu nemendur verið beðnir um að telja upp

sínar hugmyndir um „hið góða líf“ sem samkennari minn skrifaði orðrétt á töfluna.

Því næst fengu nemendur að hanna eigin spil með leikreglum og leiðbeiningum.

Page 5: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

5

að teygja hugsun sína lengra, að reyna að sjá fleiri hliðar á einhverju máli, að freista þess að finna aðrar

lausnir. Heimspeki er, eins og Aristótelesi var, ekkert óviðkomandi.

Heimspekingur nokkur sagði eitt sinn: „Þú veist ekki hvað þú veist fyrr en þú hefur hugsað um það, rætt

það við einhvern og skrifað um það.“ Það er það sem heimspekingar gera. Þessi hringrás endurtekur sig í

hvívetna. Og um það snýst heimspeki. Sú hætta er þó til staðar að hún fari að hverfast um sjálfa sig, að

heimspekingar stundi sína heimspeki einungis fyrir sjálfa sig eða aðra heimspekinga. Þetta er stundum

kallað að loka sig inni í fílabeinsturni fræðanna. Allir ættu að láta sér lífið í kringum sig og umhverfið sjálft

varða og reyna að láta gott af sér leiða. Þannig ætti heimspekin, rétt eins og Aristóteles leitaðist eftir, að

gera sér far um að uppfræða fólk, hjálpa því að verða meðvitað um sjálft sig og hvers konar lífi það lifir.

Með nokkurri einföldun mætti segja að þess konar viðleitni sé það sem heimspeki er. En síðan er hún

auðvitað líka svo margt annað, en það kemur allt saman æ betur í ljós þegar maður sökkvir sér ofan í

hinar ólíku fræðigreinar hennar.

Nú á dögum er heimspeki oftast skipt í þrjú svið: (1) Siðfræði, (2) þekkingarfræði og frumspeki og (3)

rökfræði. Hér á eftir verður farið nokkrum orðum um þessi svið og reynt að greina sameiginlegan þráð í

viðfangsefnum þeirra, en í stuttu máli er hann sá að öll fást sviðin við spurningar sem maðurinn lætur sig

varða, hvort sem þær snúi að reglum og skyldum, lífi og dauða, tilvist guðs eða tímanum og stöðu

mannsins gagnvart honum. Sérhverjum kennara verður ljóst að í raun má fjalla um flestar spurningar og

finna á þeim heimspekilegan flöt. Oft fer vel á því að glíma við spurningar sem nemendum sjálfum

hugnast og hafa stungið upp á. En til þess að geta leitt nemendur á jafn spennandi slóðir og slík kennsla

býður upp á verður kennarinn fyrst að hafa kynnt sér að viðfangsefni heimspekinnar og hvert hlutverk

hennar sé.

Hvað er siðfræði?8

Siðfræði er sú fræðigrein sem rannsakar ólíkar lífsreglur og áhrif breytni manna, ákvarðana og athafna á

líf þeirra. Í þeirri mynd sem við þekkjum hana í dag hefur þessi rannsókn farið fram í hartnær 2500 ár. Á

mismunandi tímum hafa hin og þessi siðfræðikerfi notið lýðhylli og í gegnum þau hafa menn talið sig

getað kortlagt eðli mannsins. Á enn öðrum tímum hafa ýmsir hugsuðir stigið fram og hafnað

8 Áhugasömum er bent á samnefnda grein Páls Skúlasonar. (1987). Í Pælingar – Safn erinda og greina. Reykjavík: ERGO, bls. 221-228. Og samnefnda grein Páls S. Árdal. (1997). Í Siðferði og mannlegt eðli. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls. 9-14. Einnig bók Páls Skúlasonar. (1990). Siðfræði. Reykjavík: Rannsóknarstofnun í siðfræði. Einnig má fræðast um dygðasiðfræði í eftirmálsgrein Páls Skúlasonar um Aristóteles (1987).

Page 6: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

6

siðferðilegum gildum og réttmæti siðferðilegra dóma. Þrjú fyrirferðamestu siðfræðikerfin í sögu

vestrænnar heimspeki eru kennd við dygðasiðfræði, skyldusiðfræði og nytjahyggju. Dæmi um stefnu

sem hafnar siðferðilegum kerfum er tómhyggja. Í þessum kafla verður fjallað um þessi kerfi í þeirri röð. Í

lok kaflans verður hugað að lýðræði og hlutverk þess í skólastarfi.

1. Dygðasiðfræði

Hvað er hamingja og hvað er hið góða líf? Getur reynsla af tölvuleikjum eða borðspilum hjálpað þér

að svara þessum spurningum? Því verður ekki haldið fram hér að slík reynsla svari þeim í eitt skipti

fyrir öll, en ef til vill getur hún gert þeim sem aldrei hafa velt þessum spurningum fyrir sér kleift að

setja vissa hluti er snerta glímuna við „stórar spurningar“ af þessu tagi í samhengi við þekkingu sem

margir hafa (og oft án þess að gera sér grein fyrir því). Flestir myndu svara spurningunni

hvað er það sem gerir þig hamingjusaman?

á þá leið að það sé ef manni sjálfum og þeim sem manni þykir vænt um farnist vel. Þannig má segja

að hamingjan sé fólgin í því að manni líði vel og sé um leið háð því að manns nánustu (vinir og

ættingjar) líði einnig vel. Ef þetta er rétt, þá er hægur leikur að öðlast hamingju – því væntanlega

þarf maður þá bara að gera það sem veitir manni hamingju og stuðla um leið að hamingju annarra til

að verða hamingjusamur eða farsæll. En þá vaknar samstundis spurningin

hvaða hegðun og lundarfar gerir mann hamingjusaman?

Við skulum ímynda okkur að hamingja sé takmark og að við séum að keppa að þessu markmiði í

tölvuleik eða borðspili. Nú skulum við spyrja okkur hvernig reglurnar eiga að vera í þessu spili. Við

skulum einnig hafa það hugfast að leikurinn verður að vera skemmtilegur og sanngjarn, en jafnframt

að reglurnar séu skýrar um til hvers sé ætlað af sérhverjum leikmanni og hvaða háttsemi sé til

framdráttar í spilinu og, eins, hvers konar háttsemi sé refsiverð. Þegar við veltum þessum

spurningum fyrir okkur erum við í rauninni að glíma við sams konar spurningar og dygðasiðfræðin

reynir að svara. En hvað eru dygðir?

Dygðir eru mannkostir og dygðasiðfræði er sú stefna sem gengur út á að við verðum aðeins farsæl í

lífi og starfi með því að tileinka okkur góða mannkosti. Með því að leggja rækt við sálina verður

Page 7: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

7

maður dygðugur og er markmið þannig lífernis að öðlast hamingju.9 Samkvæmt þessari

hugmyndafræði hefur sérhver hlutur svokallað eiginverk eða tilgang. Eiginverk hnífs er að skera og

eiginverk kirkjuklukku (bjöllu) að hringja. Með öðrum orðum er eiginverk sérhvers hlutar að gera það

vel sem honum er ætlað að gera. Og þannig er eiginverk mannsins einfaldlega að vera dygðugur. Líta

má á þetta sem innra hlutverk okkar en jafnframt gegnum við einhverju ytra hlutverki, einhverju

starfi sem við innum af hendi eða embætti sem við gegnum innan samfélagsheildarinnar. Okkur ber

að kappkosta við að sinna þessu ytra hlutverki vel, alveg eins og við á um hinu innra hlutverki okkar –

að hlúa að sálinni og leita hamingju. Ef til vill hentar þessi stefna betur þeim sem hafa góða stöðu í

þjóðfélaginu heldur en hinum sem standa í ævilöngu basli og striti.

2. Skyldusiðfræði

Í sjónvarpinu er þáttur sem gengur út á það að hópur af yngismeyjum eiga að keppa um hylli

piparsveins sem ætlar að kynnast sérhverri þeirra og, ef allt gengur eftir, velja eina úr hópnum sem

hann mun ganga að eiga. Konurnar í þættinum vilja verða hans. Þær reyna eftir ýmsum leiðum að

verða sú heppna og að sjá til þess að piparsveinninn velji sig fram yfir hinar stúlkurnar. Í daglegu máli

er gjarnan talað um það að ganga í hjónaband sem að ein manneskja gangi að eiga aðra, en sögnin

að eiga er þó aðeins huglæg. Í þessum sjónvarpsþætti virðist hins vegar sem bókstaflega sé verið að

gefa til eiginkonu, þannig að piparsveinninn eignist yngismeyjuna. Hér sé með einhverju móti verið

að hlutgera þátttakendur sjónvarpsþáttarins. Ljóst er að líf þeirrar sem stendur uppi sem heitmey

piparsveinsins muni breytast til frambúðar. Sjónvarpsvélarnar fylgjast með öllu ferlinu og gera

þátttakendurna að nokkurs konar viðfangi eða skemmtiefni okkar sem á þáttinn horfum. Við

skemmtum okkur yfir hinum tilfinningalega rússíbana sem piparsveinninn og yngismeyjarnar ganga í

gegnum fyrir allra augum. Við kímum að óheppilegum tilsvörum og gleðjumst yfir óförum þeirra sem

í lok hvers þáttar þurfa að taka saman föggur sínar og halda til síns heima. Við áhorf slíks þáttar spyr

maður sig hvort það fari manninum vel að vera í hlutverki þar sem hann er verkfæri í höndum annars

en ekki það markmið sem býr í honum sjálfum. Til að svara því þurfum við að átta okkur á hvers

konar markmið það gæti verið. Eitt svar gæti verið á þá leið að siðferðileg breytni ráðist af innbyggðri

skyldu, en hér er nauðsynlegt að skýra betur þá skyldu og hvernig hún tvinnast saman við eitthvert

markmið sem býr í hverjum og einum.

9 Ólafur Jens Pétursson. (1985). Hugmyndasaga. Reykjavík: Mál og menning, bls. 65.

Page 8: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

8

Skyldusiðfræði leggur einstaklingnum til grundvallarreglu sem mælir fyrir um að haga skuli allri

breytni þannig að samþykkja megi að aðrir tileinki sér hana líka.10 Þær ákvarðanir sem maður tekur í

samræmi við þessa reglu mega ekki vera í innri mótsögn.11 Maðurinn er markmið í sjálfu sér, en ekki

aðeins tæki. Hans mikilvægasti eiginleiki er frelsið. Með þessu er átt við að hann hefur frelsi til að

vilja hið góða. Hann hefur val um það hvernig hann hagar breytni sinni. Að vilja hið góða er því í

samræmi við regluna, sem einnig nefnist hið skilyrðislausa skylduboð og það að aðhyllast hinu illa

stríðir gegn henni. Í ríki markmiðanna, hinu siðferðilega fyrirmyndarríki, eru allir menn markmið í

sjálfu sér.12 Samkvæmt þessari stefnu svörum við kalli skyldunnar, þ.e. hins skilyrðislausa

skylduboðs, af þeirri einföldu ástæðu að hún krefur þess af okkur. Ástæðan fyrir þessu er sú að ef

menn „gera skyldu sína vegna þess að þeir eru að hugsa um hvað komi sér vel fyrir þá sjálfa eða

aðra, um eigin hamingju eða almannaheill, þá breyta þeir ekki siðferðilega.“13 Það er sem sagt

mikilvægt að hlýða hinu skilyrðislausa skylduboði vegna sjálfrar skyldunnar og eingöngu vegna

hennar. Það má nota tvær samlíkingar til að lýsa annars vegar birtingarmynd þessarar reglu og hins

vegar ástæðu fyrir henni. Sem dæmi um það hvernig við hlýðum henni má nota samlíkinguna við það

þegar börn hlýða foreldrum sínum, en það gera þau einfaldlega vegna þess að þau eiga að gera það.

Sem dæmi um það af hverju við eigum að hlýða hinni siðferðilegri skyldu má nota samlíkinguna við

gildi umferðalaga. Þegar við metum tilteknar umferðarreglur getum við ekki velt því fyrir okkur hvort

þær komi okkur sjálfum eða öðrum vel; ef við ætluðum að taka upp á því að vega og meta hverja

reglu fyrir sig eftir einhverri hentistefnu, þá misstu umferðarlögin fljótt gildi sitt. Þau verða að gilda

alls staðar og fyrir alla. Þannig eigum við, samkvæmt stefnu skyldusiðfræðinnar, að umgangast

siðalögmálið.

3. Nytjahyggja

Nytjahyggjan er stefna sem gengur út frá að við eigum að haga breytni okkar þannig að hún stuðli að

hámarks hamingju allra.14 Slík regla gerir ráð fyrir að það geti talist réttlætanlegt að fórna

einhverjum einum fyrir hagsmunum heildarinnar. Það gefur auga leið að þetta myndi ekki

10 Kant, Immanuel. (2003). Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni (þýð. Guðmundur Heiðar Frímannsson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls. 140. 11 Þessi og næstu málsgreinar fengnar úr lokaritgerð undirritaðs: Kristian Guttesen. (2006). Að eilífum friði. Siðfræði Kants lesin í friðarhugmyndum hans. Sótt 27. júní 2012 af http://skemman.is/item/view/1946/2817 (Sjá bls. 3). 12 Kant, Immanuel. (2003). Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni (þýð. Guðmundur Heiðar Frímannsson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls. 160. Betur má fræðast um skyldusiðfræði í eftirmálsgrein Páls Skúlasonar um Immanuel Kant (1990). 13 Vilhjálmur Árnason. (1991). Þættir úr sögu siðfræðinnar. Reykjavík: Háskóli Íslands, bls. 46. 14 Betur má fræðast um nytjastefnuna í kafla 15 Skyldur og skuldbindingar í bók Páls Skúlasonar. (1990). Siðfræði. Nánar tiltekið í undirkafla 15.4. Rót siðferðisins og heillakenningin.

Page 9: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

9

samræmast viðhorfi skyldusiðfræðinnar, sem áður var rakin og héldi fram að „sá sem breyti rétt af

nokkurri ástæðu annarri en þeirri að breytnin er rétt geti ekki talizt dyggðugur.“15 Nytjahyggjan

dæmir á hinn bóginn breytni út frá því hverjar afleiðingarnar af henni verða.

Siðferðilegt markmið mannlegra athafna er að mati nytjastefnunnar velferð og hamingja fólks og

engar siðakröfur geta verið svo háleitar að þessu markmiði sé fórnað.16

Nytjahyggjan hefur líka verið kölluð afleiðingasiðfræði. En samkvæmt henni eykst siðferðilegt gildi

athafnar „í réttu hlutfalli við fjölda þeirra sem njóta góðs af henni, þ.e. í samræmi við það

„hamingjumagn“ sem hún hefur í för með sér.“17 Í stað siðalögmáls skyldusiðfræðinnar er því hér

gengið út frá hinu svokölluðu hámarkshamingjulögmáli. Þessi stefna leggur upp úr góðri menntun og

frelsi einstaklinga sem hlýst af upplýstri umræðu. (Þess ber ekki að skilja að skyldusiðfræði hafni

slíkum gildum heldur hampar hún þeim á öðrum forsendum.) Samkvæmt nytjakenningunni hafa allir

„hæfileika til að sækjast eftir menningarverðmætum en slæmt uppeldi og erfiðar

þjóðfélagsaðstæður gætu auðveldlega eyðilagt slíka hæfileika.“18 Þetta er því lykillinn að nokkurs

konar velferðarkerfi. Þá vilja sumir meina að nytjahyggja leggi grunninn að jafnréttisbaráttu kvenna.

Hins vegar hefur einnig komið fram gagnrýni á hana, til dæmis í skáldsögu Dickens Harðindi (e. Hard

times) frá árinu 1854, en hún hefur verið túlkuð sem tilraun til að sýna fram á hvernig nytjahyggja

geti boðið upp á misskiptingu auðs og illa meðferð á fátæku fólki. Annað dæmi sem sýnir misjafnar

birtingarmyndir nytjahyggjunnar gæti verið svona: Fjölskylda ungs drengs flytur á framandi slóðir og

hann þarf að byrja í nýjum skóla. Þar kemst hann strax að því að á skólalóðinni sé til siðs að

nemendur gefi hver öðrum fingurinn og til að falla í hópinn tekur hann upp á þessu eins og aðrir. En

ungi drengurinn áttar sig hins vegar ekki á því að aðrir nemar gera þetta aðeins þegar starfsfólk

skólans sér ekki til – en í þessum skóla liggja ströng viðurlög við því að gera svona lagað. Einhver úr

kennaraliðinu sér til hans gefa samnemanda sínum fingurinn og því verður hann að sæta refsingu.

Foreldrar drengsins eru boðaðir á fund skólastjórans. Móðirin rannsakar málavexti og bendir

skólastjóranum á að sonur hennar hafi einungis gert það sem fyrir honum var haft, að raunar sé

þetta til siðs meðal nemenda en sonur hennar hafi ekki áttað sig á samhengi hlutanna. Skólastjórinn

segir að sér þyki miður ef svo sé, en engu að síður verður að refsa drengnum til þess að sýna öðrum

fordæmi. Honum er því vikið einn dag úr skóla, þrátt fyrir að hið refsiverða uppátæki sé eitthvað sem

tíðkast á skólalóðinni (og skólastjórinn er meðvitaður um þetta). Að mati skólastjórans þjónar það

15 Páll S. Árdal. (1997). Siðferði og mannlegt eðli. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, bls. 12. 16 Vilhjálmur Árnason. (1991). Þættir úr sögu siðfræðinnar. Reykjavík: Háskóli Íslands, bls. 57. 17 Sama rit: 58. 18 Ólafur Jens Pétursson. (1985). Hugmyndasaga. Reykjavík: Mál og menning, bls. 218.

Page 10: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

10

best hagsmunum allra að fórna nemanum, sem í einhverjum skilningi er fórnarlamb aðstæðna, til

þess að framfylgja stefnu skólans. Í þessu dæmi lúta reglur skólans og afstaða skólastjórans

lögmálum nytjahyggjunnar, en glögglega má sjá hér ákveðið óréttlæti gagnvart nýja nemandanum,

drengnum unga sem ekki hefur gert annað en stíga inn í aðstæður sem hann skildi ekki. Ef til vill

hefði mátt taka tillit til þess. Nytjahyggjan hefur þó óneitanlega göfugt markmið. Bandaríski

siðfræðingurinn James Rachels segir að í „vissum skilningi [geti] enginn siðfræðingur hafnað

nytjastefnunni með öllu. Allir verða að viðurkenna að afleiðingar breytni okkar – hvort sem þær

stuðla að hamingju eða valda böli – eru ákaflega mikilvægar. John Stuart Mill sagði eitt sinn að svo

fremi við værum góðviljuð í garð annarra þá yrðum við að viðurkenna nytsemismælikvarðann. Hann

hafði vissulega rétt fyrir sér. Enn fremur hlýtur áhersla nytjastefnunnar á óhlutdrægni að vera þáttur

í sérhverri réttlætanlegri siðfræðikenningu“.19 Í næsta undirkafla er viðhorf kynnt til sögunnar sem

les þessa fullyrðingu ekki sem ástæðu fyrir að leita slíkrar kenningar heldur sem ástæðu fyrir því að

hafna siðfræðikenningum með öllu.

4. Tómhyggja

Á einum stað í Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis20 er spurt: Til hvers eru reglurnar? En þar segir að

á árunum fyrir íslenska bankahrunið, sem varð árið 2008, hafi

bankarnir og viðskiptaheimurinn íslenski […] hneigst til að fylgja lagabókstafnum fremur en anda

laganna. Þetta viðhorf staðfestist hvað eftir annað í skýrslutökum af þeim sem störfuðu innan

fjármálafyrirtækjanna og jafnvel það er ofmælt. Reynt var eftir mætti að komast framhjá

reglunum ef þess var kostur. Í þessum efnum eins og öðrum virðast bankarnir allir hafa verið

furðu samstíga. Regluvörður í Kaupþingi segir að þar hafi viðhorfið verið að taka ætti slaginn við

Fjármálaeftirlitið. Og innri endurskoðandi Landsbankans tekur í sama streng: „[É]g held að

almennt séð hafi menn litið á reglur svona eitthvað sem hægt væri að „challenge-era“, eitthvað

sem ætti að vinna með þannig að virðing fyrir anda reglnanna og svoleiðis hafi kannski ekki

almennt verið til staðar heldur voru menn frekar viljugir til að þróa reglur … þróa túlkun á reglum

þannig að menn kæmust … svona eins og í fótbolta, menn reyndu að tækla án þess að vera

dæmdir.“21

Hér verður ekki gerð tilraun til að gera upp íslenska efnahagshrunið, en það er áhugavert að benda á

að í viðhorfinu sem lýst er í tilvitnuninni hér á undan má greina siðferðilega tómhyggju eins og hún

birtist í samtímanum. Hefði hún einhver einkunnarorð, þá fælu þau sennilega í sér skilaboðin að ef

19 Rachels, James. (1997). Stefnur og straumar í siðfræði (þýð. Jón Á. Kalmansson). Reykjavík: Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan, bls. 154. 20 Í Páll Hreinsson, Sigríður Benediktsdóttir og Tryggvi Gunnarsson (ritstj.), Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir (2010). Reykjavík: Rannsóknarnefnd Alþingis, bls. 50. 21 Sama rit: 50-51.

Page 11: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

11

eitthvað sé hægt þá er það gert. En afstaða tómhyggjunnar er ekki einhlít og henni til varnar má lesa

úr henni mikilvæg gagnrýni á þau siðferðilegu gildi sem nútímamaðurinn aðhyllist.

Gagnrýni tómhyggjunnar á hinn vestræna heim er tilraun til að sýna fram á hvernig öll siðferðileg

gildi sem viðhöfð eru í samfélagi okkar tíma séu leifar af kristilegu siðamati (og platonisma22 – þ.e.

þeirrar heimspeki sem gengur út frá því að til sé frummyndaheimur þaðan sem öll gildi eiga uppruna

sinn).23 Með þessu er átt við að til þess að réttlæta stöðu sína í lífinu hafi maðurinn snúið

siðferðilegum gildum upp í eitthvað sem þau eru ekki. Þannig búum við til dæmis við það sem kalla

mætti þrælasiðferði. Við látum ýmislegt yfir okkur ganga vegna þess að við teljum að það sé göfugt.

Við teljum að eftir að við deyjum muni okkur launast allar þjáningar í lífinu. Til að afmarka

þrælasiðferðið búum við einnig til höfðingjasiðferði. Það réttlætir stöðu þess sem býr við góða kosti

og skapar þversögn sem viðheldur ákveðnu jafnvægi: Hinir valdalitu álíta, í krafti þrælasiðferðisins,

sig góða og hina valdamiklu vonda á meðan þeir, í krafti höfðingjasiðferðisins, álíta sjálfa sig góða en

almenning vondan. Þannig býr maðurinn við tvöfalt siðgæði. Samkvæmt tómhyggjunni eru

siðferðileg gildi á borð við gott og vont innantóm. Þeir sem henni aðhyllast kalla eftir endurmati allra

gilda þannig að maðurinn megi hefja sig upp yfir hið falska, tvöfalda siðgæði. Hins vegar má velta því

fyrir sér hvort að slík tómhyggja leiði til siðferðilegrar afstæðishyggju, ástands þar sem allt er

leyfilegt og hver og einn hagar sér í reynd eins og honum sýnist. Þessu gætu tómhyggjusinnar,

nihilistar, svarað á þá leið að þetta hafi nú þegar gerst og þess vegna sé brýnt að hefja manninn upp

á æðra plan, þar sem hann getur fundið

sjálfan sig í lífinu hér og nú, lifi því þannig, að hann geti lifað því aftur og aftur, ótalsinnum játað af heilum

huga að „þetta líf er eilífð þín“.24

5. Lýðræði

Kennurum er gert að innræta nemendum lýðræði. Í því felst að kenna um lýðræði, að sýna hvernig

það virkar og lofa nemendum að iðka lýðræði. Ólafur Páll Jónsson segir í anda Deweys að hugsa megi

sér „að skólakerfi undirbúi nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi með þrenns konar hætti. Í

fyrsta lagi með því að mennta þá – og einkum fræða og þjálfa – þannig að úr verði gjaldgengt

starfsfólk fyrir lýðræðislegar stofnanir samfélagsins. … Í öðru lagi með mun víðtækari en jafnramt

22 Á Heimspekivefnum eru tvær greinar eftir Eyjólf Kjalar Emilsson (2005a; 2005b) um platonisma aðgengilegar, Hvað hafði Platón á móti skáldskap? Árásir Platóns á skáldskapinn í Ríkinu; og Sólin, hellirinn og hugsanir Guðs. Hugleiðingar um

Platonisma og samtímaheimspeki (Sóttar 5. júlí 2012). 23 Betur má fræðast um tómhyggju í eftirmálsgrein Páls Skúlasonar um Nietzsche (1990). 24 Ólafur Jens Pétursson. (1985). Hugmyndasaga. Reykjavík: Mál og menning, bls. 229.

Page 12: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

12

persónulegri hætti þar sem áhersla er lögð á lífið frekar en starfið, á hvað það er að vera borgari í

samfélagi við aðra jafningja. … Og í þriðja lagi með þeim hætti að gera fólki kleift að vera sjálfráða

gerendur í eigin lífi en ekki leiksoppar fávisku, fordóma eða afturhaldslegra hefða.“25 Hver sá kennari

sem ætlar að undirbúa nemendur sína undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi með þessum hætti þarf

sjálfur að hafa kynnst því á sömu forsendum og ég segi hér fyrir ofan að kennsla lýðræðis feli í sér.

Hin formlega skilgreining á lýðræði er sú sem Björn Þorsteinsson hefur eftir Claude Lefort: „Lýðræði

er stjórnarform þar sem sæti valdhafans er autt.“26 Við þessu bætir Björn að raunar sé valdhafinn

þjóðin (Sama rit). Í skólastofunni felst verkefni kennarans í því að skapa andrúmsloft í anda þessara

hugmynda, án þess endilega að predika sjálfar kenningarnar sem vitnað er til hér á undan, þannig að

samskipti nemenda og þátttaka í skólastarfi efli lýðræðisvitund þeirra. Til að sýna nemendum

hvernig lýðræði virkar er til dæmis hægt að fara í hlutverkaleiki, þar sem ákvarðanir nemenda skipta

máli fyrir framvindu leiksins. Til að lofa nemendum að iðka lýðræði leyfir kennarinn nemendum að

taka sjálfstæðar ákvarðanir, sem þeir finna að hafa áhrif á námið eða þátttöku þeirra í

skólasamfélaginu. Kjarninn í lýðræðishugsjón Deweys er fyrirtaks uppskrift að því eðli sem einkenna

ætti kennara og uppalendur:

Lýðræðið sem lífsmáti á rætur í einstaklingsbundinni trú í daglegri samvinnu við aðra. Lýðræði er sú trú að

jafnvel þegar þarfir og markmið eða afleiðingar eru ólík frá einni manneskju til annarrar, felur það að

temja sér að vinna saman af vinsemd – sem getur falið í sér, t.d. í íþróttum, samkeppni og kapp –

ómetanlega viðbót við lífið. Með því að taka sérhvern ásteytingarstein – og þeir hljóta að verða fjölmargir

– eftir því sem nokkur kostur er út úr andrúmslofti og umhverfi valds og aflsmunar sem leið til úrlausnar

og inn í umhverfi rökræðu og skynsemi, þá lítum við á þá sem við eigum í ágreiningi við – jafnvel

25 Ólafur Páll Jónsson. (2011b). Lýðræði, réttlæti og menntun. Reykjavík: Háskólaútgáfan, bls. 19. 26 Björn Þorsteinsson. (2012). Framtíð lýðræðisins og lýðræði framtíðarinnar: Gagnrýnin hugsun í skólastofunni og víðar. Sótt 26. september 2012 af vef verkefnisins Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum, http://gagnryninhugsun.hi.is/?p=1899.

Ég hef stundum leyft nemendum mínum að spreyta sig á hlutverkaleik sem ég kalla

„Sprengjuleikinn“. Hópnum er skipt í tvö lönd, sem látin eru gera friðarsáttmála. Þá

eiga löndin að funda sitt í hvoru lagi, en þegar þegnarnir hafa safnast saman (og

vita hver um sig ekki lengur hvað hitt landið ætlast fyrir) fá þeir upplýsingar um

sprengjuógn sem stafar af hinu landinu. Hvort um sig þurfa löndin að ákveða hvort

þau virði friðarsáttmálann eða hefji gagnárás. Í þessu ferli skapast talsverð spenna,

en nemendurir ákveða einnig hvaða stjórnarform þeir munu notast við. Í lok

tímans eru hóparnir leiddir saman og sagt er frá því hvaða stjórnarform hafi orðið

ofan á í hvoru tilfelli fyrir sig og síðan kemur í ljós hvort friðurinn hafi haldist eða

ekki …

Page 13: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

13

djúpstæðum ágreiningi – sem einstaklinga sem við getum lært af, og að sama marki sem vini.27

Sigurlaug Hreinsdóttir orðar þetta viðhorf til lýðræðisins ágætlega með eftirfarandi hætti: „Svona

uppbyggt lýðræðislegt samfélag með andrúmslofti sem einkennist af vináttu og jafningjaviðhorfi hvetur

nemendur til þess að taka þátt.“28

Það er vert að geta þess að hugmynd Deweys um lýðræðið er í nokkurri andstöðu við dygðasiðfræðina,

sem minnst var á hér að framan, en í henni er gengið út frá því að maður hagi lífi sínu samkvæmt

einhverju sem sagt er vera gott. Dewey telur hins vegar eftirsóknarvert að maður lifi í góðu

lýðræðissamfélagi og að gott lýðræði verði aðeins til þar sem eru lýðræðislegar manneskjur. En þær

verða einungis lýðræðislegar með því að tileinka sér lýðræðislegan lífsmáta sem snertir hugarfar og

tilfinningalega nálgun, með því að lifa og hrærast í andrúmslofti sem einkennist af lýðræðislegu

hugarfari. Andstæða þessara hugmynda við dygðasiðfræði er fólgin í því að hugmyndafræði Deweys

byggir á verkhyggju eða gagnsemishyggju (e. pragmatism). Rannsóknir Deweys eru rannsókn á

samfélaginu og við erum afurð þess, við erum afleiðing af því umhverfi sem við ölumst upp í.

Hvað er frumspeki? Hvað er þekkingarfræði?

Hvað er raunveruleiki? Hvað er þekking? Er ég til? Hvað get ég vitað? Þekkingarfræði og frumspeki eru

skyldar greinar. Sú fyrri fjallar um eðli þekkingar og sú seinni um takmörk mannlegrar þekkingar. Í

þessum kafla mun ég fara nokkrum orðum um frumspeki og þekkingarfræði og viðfangsefni þeirra og

fjalla síðan um kvikmyndina The Matrix í ljósi þeirrar umfjöllunar.

Seinni skilgreiningin sem ég setti fram hér að framan um frumspeki – að hún sé um takmörk mannlegrar

þekkingar – er ef til vill of brött. Sumir gætu haldið því fram að nær væri að segja að hún fengist við

grundvöll veruleikans eða einfaldlega við veruleikann. Engu að síður, þegar allt kemur til alls, þá leiðir

rannsókn af þessu tagi í ljós að svið mannlegrar þekkingar er takmarkað og við getum ekki vitað allt um

alla hluti. Þess vegna er glíman við veruleikann og spurningar á borð við hvernig get ég vitað að ég er til?

sprottnar af þeirri staðreynd að mannleg þekking er takmörkum háð. Margir kannast við þá tilfinningu

að hafa dreymt að þeir væru að vakna, en átta sig svo kannski á því, í svefnmókinu, að þeir liggja enn í

27 Ólafur Páll Jónsson. (2011b). Lýðræði, réttlæti og menntun. Reykjavík: Háskólaútgáfan, bls. 29. 28 Sigurlaug Hreinsdóttir. (2012). Persónuleg samskipti, 27. september 2012.

Page 14: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

14

rúminu og þurfa ef til vill að drífa sig á fætur. Enn á ný dreymir þá að þeir séu sprottnir fram úr rúminu

en stuttu síðar átta þeir sig á því að þeir liggja enn á sama stað, í rúminu sínu. Nokkrir hugsuðir hafa

varpað fram þeirri spurningu hvort veruleikinn sé eins og draumur af þessu tagi? Hvað ef við höldum að

veruleikinn sé áþreifanlegur, en í raun og veru sé okkur að dreyma hann. Með öðrum orðum, hvernig

getur maður vitað að maður sé til? Hvernig get ég vitað með fullnægjandi vissu að allar aðrar

manneskjur séu líkamar og hugar, en ekki einfaldlega hlutar af mínum eigin veraldardraumi? Þessu get

ég aldrei svarað með fullri vissu. Ég gæti ef til vill svarað því til að ég veit að ég er til vegna þess að annað

væri fjarstæða. En við þessu væri hægt að segja að það að eitthvað sé fjarstæða þýðir ekki að það sé ekki

mögulegt. Í sögulegu yfirliti um efahyggju vitnar Atli Harðarson með eftirfarandi hætti í bandaríska

heimspekinginn, Hilary Putman:

Í gær varst þú numinn brott af geimverum. Þær tóku heilann úr hauskúpunni og settu hann í krukku en

hentu restinni af skrokknum. Æðar sem standa út úr heilanum tengdu þær við dælu sem dælir blóði jafn

góðu og heilinn var vanur að fá og taugar sem bera heilanum boð tengdu þær við vélar sem búa til svipuð

áreiti og þú fengir ef þú gengir enn um á jörðu niðri. Að síðustu strokuðu þær út úr heilabúi þínu allar

endurminningar um þessa skurðaðgerð og allar upplýsingar sem gætu fengið þig til að gruna hvernig

högum þínum er háttað. Hvernig veistu að það er ekki svona komið fyrir þér? Hvernig veistu að þú ert ekki

heili í krukku?29

Viðfangsefni þekkingarfræðinnar er hin hliðin á sama peningnum. Hér er verið að reyna að komast að því

hvað sé sönn þekking og hvernig sé hægt að öðlast hana.

Ímyndum okkur að sjálfur Platon birtist dag nokkurn upp í stofunni heima hjá mér.30 Með einhverjum

hætti hefði hann fallið í dá á sínu hinsta ævikvöldi og, fyrir tilstuðlan vísindanna, ferðast í gegnum

ormagöng sem skilaði honum, á okkar tímum, heim í stofu til mín. Ef við gefum okkur enn fremur að við

Platon hefðum sameiginlegt tungumál til þess að tjá okkur með, hverjar skyldu þá vera allra fyrstu

spurningarnar sem hann myndi spyrja mig við þessar aðstæður?

Ímyndum okkur að hans fyrstu spurningar myndu hljóma einhvern veginn á þessa leið:

Hvar er ég?

Hvert er ártalið? 31

29 Atli Harðarson. (1996). „Efahyggja“. Í Andri Steinþór Björnsson, Torfi Sigurðsson og Vigfús Eiríksson (ritstj.) Er vit í vísindum – sex ritgerðir um vísindahyggju og vísindatrú. Háskólaútgáfan: Reykjavík, bls. 15-37. Sótt 10. ágúst 2012 af http://this.is/atli/textar/I_BOKUM/EFAHYGGJA.pdf. 30 Næstu málsgreinar byggja að nokkru leyti á óbirtri skólaritgerð undirritaðs: Kristian Guttesen. (2007). Hvaða sannleikskorn er í þeirri kenningu að þekking sé skynjun (ÞS)? 31 Með fyrirvara um – eða ég gef mér – að við Platon gætum, eftir krókaleiðum, komið okkur saman um sameiginlegt tímatal.

Page 15: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

15

Hann væri vaknaður á stað þar sem áreiti skynjana hans ættu enga samleið með hans fyrri þekkingu og

því þyrfti hann fyrst og fremst að staðsetja sig í rúmi og tíma. Þetta væri eins konar frumaðstæður manns

til þess að samsama eigin þekkingu við óáreitta skynjun.

Í fyrsta hluta samræðunnar Þeætetus hrekur Platon þá kenningu að þekking sé skynjun. Meginpersónur

samræðunnar eru Þeætetus – sem leggur til grunnkenninguna og reynir, eftir því sem samræðunni

vindur áfram, að endurbæta hana – og Sókrates, sem dregur brotalamir hverrar þeirra fram í ljósið,

jafnóðum. Kennari Þeætetusar, Þeódórus, er viðstaddur en tekur ekki virkan þátt í samræðunni. Hann á

þó heiðurinn af því að kynna Þeætetus fyrir Sókratesi, sem verður til þess að samræðan á sér stað.

Sókratesi stendur hugur til að útskýra eðli þekkingar og biður Þeætetus um að vísa veginn á þeirri

vitsmunaleið sem kann að leiða til úrlausnar þeirrar þrautar.

Þeætetus leggur upp með þá staðhæfingu að þekking sé skynjun.32 Að nánari athuguðu máli

komast þeir að þeirri niðurstöðu að þetta sé það sama og Prótagóras hafi áður haldið fram, þegar hann

sagði að maðurinn væri mælikvarði alls. Með þessu er átt við að hlutirnir eru fyrir einum manni – mér –

eins og ég skynja þá, en fyrir öðrum manni – þér – eins og þú skynjar þá. Þannig getur mér fundist vindur

sem blæs á okkur báða verið heitur, en þér fundist hann vera kaldur. Eins getur sami liturinn virst

mismunandi hverjum og einum í ljósi aðstæðna.

Eru eldingarnar í kössunum nákvæmlega sömu stærðar og í sama lit?

Vandamálið við kenningu Prótagórasar er það að ef maðurinn er mælikvarði alls, þá fer sannleiksgildi

hennar sjálfkrafa eftir hverjum og einum. Einnig gleymist að gera grein fyrir öðrum verum í slíku kerfi,

svo sem dýrum og guðlegum öndum.

Hér er sem sé búið að taka fyrir þá grunnkenningu að öll þekking sé skynjun og útiloka hana með þeim

rökum að afstæðishyggjan sem hún feli í sér geri það af verkum að sé hún sönn þá sé hún líka ósönn og

þar af leiðandi standist hún ekki.

32 Burnyeat, Myles. (1990). The Theaetetus of Plato (þýð. Levett, M.J.), Indianapolis og Cambridge: Hackett Publishing Company, bls. 287 (151e).

Page 16: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

16

Þegar maður rýnir í hinn ímyndaða veruleika, sem Í upphafi kvikmyndarinnar The Matrix er dreginn upp,

er athyglisvert að skoða nokkur heimspekiminni sem þar koma við sögu; en mynd þessi sækir sterkt í

sömu vandamál og Sókrates og félagar glíma við í Samræðunni

við Þeætetus.33

Hópur uppreisnarseggja, í andófi við það sem meirihluti

jarðarbúa – hinir óupplýstu – hefur samþykkt sem

raunveruleikann, bankar upp á hjá aðalsöguhetjunni Neo.

Þeirra á meðal er ung stúlka með hvítt húðflúr á öxlinni af

kanínu. Neo hafði áður fengið skilaboð í tölvunni sinni um að

honum bæri að „elta hvítu kanínuna“34 og ákveður að slást í för með þeim.

Kanínan, sem ætlar óneitanlega að leiða okkur ofan í kanínuholuna úr Lísu í undralandi (hvert leiðir

hún?) 35, sækir heimspekilega tilvísun í kanínu Wittgensteins. En með henni sýnir Wittgenstein fram á að

einföld teikning geti haft fleiri en eina merkingu. Skynjun leiðir af sér margvíslega þekkingu.

Leit Neos að sannleikanum mun leiða hann upp stiga Wittgensteins.36 Sá sem klífur hann verður að

samþykkja fyrir fram að útsýnið (eða þær upplýsingar) sem er að finna þegar á toppinn er komið verður

eitthvað svo framandi að stiginn – leitin, upplýsingaöflunin – verður honum gagnslaus í þeim veruleika

sem þá mun blasa við honum.37 Það er, skynþekkingin er afstæð þeirri þekkingu sem skynjunin veitir

hverjum og einum.

Áður en Neo er leiddur á fund leiðtoga uppreisnarseggjanna, Morpheus, spyr hann förunaut ungu

stúlkunnar hvort hann kannist við þá tilfinningu að geta ekki greint með vissu á milli drauma og vöku.38 Í

þeirri spurningu kristallast viðfangsefni eins höfuðrita Descartes frá 1641, Hugleiðingar um frumspeki. En

þar rannsakar hann greinarmun þekkingar og blekkingar og sýnir að án þess að ganga út frá tilveru Guðs

sé ekki hægt að færa sönnur fyrir eigin tilvist, né heldur annarra.

33 Fram skal tekið að í þessum hluta styðst ég að einhverju leyti við athugasemdir heimspekinganna Dr. Cornel West og Ken Wilber (2004), sótt í aukaefni mynddisksins Ultimate Matrix Collection (The Matrix), Warner Bros. 34 Wachowski, Larry og Wachowski, Andy (leikstj.). (2004). The Matrix. Í Ultimate Matrix Collection (The Matrix), Warner Bros., 0:07:20. 35 Sama verk: 0:28:03. 36 Sama verk: 0:24:15. 37 Logi Gunnarsson. (2005). Stigi Wittgensteins. Reykjavík: Háskólaútgáfan Heimspekistofnun, bls. 12. 38 Wachowski, Larry og Wachowski, Andy (leikstj.). (2004): 0:08:39.

Page 17: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

17

Konan í upphafs(bardaga)atriðinu heitir Trinity og er hún einn af undirmönnum Morpheusar. Þegar Neo

sér húðflúrið af kanínunni ákveður hann að fylgja hópnum sem fer með hann á skemmtistað þar sem

hann hittir Trinity í fyrsta sinn.39 Nafnið Trinity merkir þrenning, en á þó enga beina tilvísun í Biblíuna.

Hér á þrenningin fremur við um tengsl líkamans, hugans og andans (sótt í búddasið); sem og

þrenninguna sem viðfangsefni myndarinnar fjallar um: Zion (síðasta borgin), sýndarveruleikinn ‚The

Matrix´ og vélarnar sem hafa fjötrað mannkynið í vef blekkingarinnar.

Neo kemst að raun um að tími og rúm eru sveigjanleg fyrirbæri. Kvikmyndin The Matrix er tilraun til að

sýna veruleika handan efnisins, það sem gæti gerst við samruna tíma og rúms. Með þessu vilja höfundar

kvikmyndarinnar ef til vill segja okkur að: Ekki er allt sem sýnist.

Í heildina litið eru um tvenns konar tímamótaverk að ræða þegar samræðan Þeætetus er borin saman

við The Matrix. Wachawski bræður vinna að miklu leyti úr fræðum manna á borð við Einstein, Plank og

Heisenberg, en fást um leið við spurningu sem Platon bar á sínum tíma fram og hefur fylgt mannkyninu

um aldir alda. Spurningin sem brennur á allra vörum:

Hvað er raunverulegt?

Ég gef mér hér að framan að ég gæti ef til vill spurt Platon að þessu heima í stofunni hjá mér.40 Og

sjálfsagt þykja flestum það heldur ólíklegar aðstæður. En samt er forvitnilegt að velta því fyrir sér hvernig

39 Sama verk: 0:09:12. 40 Óháð öllum getgátum um möguleika tímaflakks.

Ljóst er að varla færi nokkur kennari að styðjast við kvikmyndina The Matrix til að

útskýra fyrir grunnskólabörnum samband sýndar og veruleika. Hins vegar eru

líkindi á milli hugmyndafræðinnar í The Matrix og sígildra ævintýra á borð við

Nýju fötin keisarans. Þannig hefur Sigurlaug Hreinsdóttir, heimspekikennari,

notað það ævintýri á samræðunámskeiði til að kalla fram umræður um samband

sýndarveruleika og raunveruleika: „Ég sagði þessa sögu í öllum hópum, en þau

tengdu við hana á mismunandi hátt. 5-6 ára krakkar voru bara skorinort um að

segja sannleikann, það skipti ekki máli þótt þau misstu vinnuna, 7-9 ára krakkar

vildu standa með sér og segja satt. En krakkar frá 10 ára og upp úr voru komin inn

í þennan veruleika – að það væri ekki sama hvernig þau voru klædd, þau öðluðust

vinsældir við að eignast nýja hluti. Og þau þekktu þetta líf sem er lýst í sögunni.“

Frásögn Sigurlaugar er dæmi um hvernig sérhver kennari sníðir stakk eftir vexti.

Page 18: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

18

við kæmum hvor öðrum fyrir sjónir. Hvernig skynjun og þekking myndi orka á veru úr öðrum tíma. Ég get

mig til að við myndum ekki einu sinni sjá hvorn annan. Að minnsta kosti ekki í réttu ljósi.

Hvað er rökfræði?

Rökfræði er skipuleg tilraun til að skýra samband hugans við heiminn. Hana má greina í nokkra þræði

sem þó flettast saman og kallast á. Hér verður farin sú leið að greina fyrst þrjá þræði með ólíka innviði.

Eflaust mætti hafa þræðina fleiri. Fjórði þráðurinn, en hann verður ekki rakinn hér, gæti til dæmis fjallað

um sögu rökfræðinnar.41 Að lokum mun ég fjalla um hlutverk rökfræðinnar gagnvart heimspekinni og

öðrum undirgreinum hennar. Í stuttu máli fæst rökfræði við allt sem lýtur að hugsun, tungumál og

hvernig binda megi samband þessara tveggja við hluti í heiminum í ákveðnar reglur. Þræðirnir þrír, sem

hér verða teknir fyrir, eru: (1) Tungumál, (2) Gagnrýnin hugsun og (3) Lögmál hugsunarinnar.

1. Rökfræði og tungumál

Oft er það raunin þegar fólki greinir á, hvort sem það er í ræðu eða riti, að það notar sömu orðin í

málflutningi sínum en ljær þeim ólíkar merkingar. Af þessu skapast misskilningur og fólk eyðir oft

löngum tíma án þess að átta sig á að það sé að tala um ólíka hluti þótt það noti sömu orðin. Þegar

við fáumst við rökfræði og tungumál er mikilvægt að við byrjum á því að tileinka okkur nokkrar

merkingarreglur um ákveðin tengiorð sem oft koma fyrir í mæltu og rituðu máli. Þessi orð eru meðal

annars: og, ekki, sumir, allir, enginn, hvorki né, að minnsta kosti og annaðhvort eða. Þegar fólk áttar

sig ekki á því nákvæmlega hvað þessi tengiorð eða setningatengi merkja er hætt við að misskilningur

skapist í samskiptum manna á milli.

Sanntöflur

sýna merkingu setningatengja, þ.e. hvenær þau eru sönn eða ósönn. Dæmi:

41 Saga rökfræðinnar (Nokkur nöfn):

Aristóteles

Rökfræðileg hugsun: Spinoza, Darwin, Hegel.

Nútímarökfræði: Leibniz , Boole, Schröder.

Raunhyggja: Frege, Russell, Wittgenstein.

Page 19: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

19

& ∨

S S S S S S S Ó S

S Ó Ó S S Ó S S Ó

Ó Ó S Ó S S Ó S S

Ó Ó Ó Ó Ó Ó Ó Ó Ó

Þegar við notum setningatengi í mæltu eða rituðu máli er hægt að beita sanntöflum til að

auðkenna nákvæmlega hvað orðin sem þau vísa til merkja. Ef ég fullyrði að tvær setningar

séu sannar, þá er setningatengið aðeins satt ef sannleiksgildi hvorrar setningar um sig lýtur

skilyrðum sanntöflu viðkomandi setningatengis. Segjum að ég fullyrði að tvær setningar, A og

B, séu sannar. Þessar fullyrðingar mega vera um hvað sem er, A gæti verið „Tunglið er ostur“

og B gæti verið „Ég er mús“. Fullyrðingin mín, A og B, vísar þá til þessara setninga. Hins vegar

er setningatengið og (&) aðeins satt ef báðar setningar, hvor um sig, eru sannar; að tunglið sé

og ostur og að ég sé mús. Ég get beitt sömu aðferð með setningatengið eða (v). Segjum að ég

fullyrði tvær setningar en tengi þær með orðinu eða, A eða B. Þessar fullyrðingar mega líka

vera um hvað sem er, A gæti verið „Ég er á tunglinu“ og B gæti verið „Ég er heima hjá mér“.

Fullyrðingin mín, A eða B, verður þá, samkvæmt samtöflunni hér að ofan, aðeins sönn þegar

önnur þessarar setningar, eða báðar, eru sannar. Ef í ljós kemur að ég sé heima hjá mér eða

ef í ljós kemur að ég sé á tunglinu, þá verður fullyrðing A eða B í þessu tilviki sönn.

Setningatengið eða stenst. Þegar kemur að setningatenginu annaðhvort eða, þá sjáum við á

sanntöflunni að hér er aðeins leyfilegt að annað sé satt á meðan hitt sé ósatt. Ef ég fullyrði A

B, þ.e. annaðhvort A eða B, þá stenst setningatengið aðeins ef önnur fullyrðingin reynist

sönn og hin ósönn. Ég gæti t.d. hafa sagt: Annað hvort skín tunglið eða ekki.

Setningafræði

gengur út á að skrifa eða þýða, eins og sagt er, mælt mál yfir á táknmál rökfræðinnar. Hluti

þeirrar vinnu er að rýna í sanntöflur eins og gert var hér á undan, en einnig er farið í það að

greina orð og orðasambönd til að kanna röktengsl setninga.

Page 20: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

20

Umsagnarrökfræði

gengur, að segja má, skrefinu lengra en setningafræði. Hér er verið að þýða flóknar setningar

og vensl þeirra. Með aðferðum umsagnarrökfræðinnar getum við greint setningu eins og

„einhver elskar alla“ og útskýrt merkingarfræðilega tvíræðni hennar eins og hér segir:

Einhver elskar alla;

Tvíræðnin felst í því að annað hvort er verið að meina (a) að til sé einhver einstaklingur sem

elskar alla aðra einstaklinga eða (b) að allir (hver og einn) einstaklingar séu elskaðir af

einhverjum (einum eða fleiri einstaklingum).

Á táknmáli umsagnarrökfræðinnar eru eftirfarandi tvær túlkanir í boði:

Einhver, x, er þannig, að sérhver, y, er þannig, að x elskar y (a)

Sérhver, y, er þannig, að einhver, x, er þannig, að x elskar y (b)42

Háttarökræði

flóknara afbrigði tveggja ofantalinna.43

2. Rökfræði og gagnrýnin hugsun

Rökvillur44

Ein leið til að sannfæra aðra um skoðun, hvort heldur sem er í ræðu eða í riti, er að beita

röksemdum. Þetta er sú aðferð sem við beitum bæði til að sannfæra aðra um að láta af

skoðun sem þeir kunna að hafa eða til að samþykkja nýja skoðun sem við teljum að muni

koma þeim til góða. Röksemdirnar sýna fram á réttmæti þeirrar skoðunar sem við höldum á

lofti eða leiða í ljós annmarka á einhverri skoðun sem við viljum andmæla. Það er kallað

rökvilla þegar röksemd felur í sér innri mótsögn. Ef til vill hefur viðkomandi ekki hugsað

röksemdina til hlítar eða honum hefur yfirsést einhverja hlið á málinu. Sumar rökvillur eru

augljósar og aðrar ekki. Einhverjar eru léttvægar og skipta litlu eða engu fyrir það mál sem er

til umræðu og enn aðrar hafa í för með sér að fólk ákveður (eða neyðist til) að taka afstöðu

sína í viðkomandi máli til endurskoðunar.

42 Haft, en stílfært, eftir lausnarblað frá Pétri Jóhannesi Óskarssyni, þ.v. aðstoðarmanni í Inngangi að rökfræði við Háskóla Íslands, haust 2006. 43 Sjá t.d. grein undirritaðs (2010) Um merkingarfræði tilvísunarorða, http://heimspeki.hi.is/?p=1748 (Sótt 16. júlí 2012). 44 Sjá einnig kaflann um rökvillur í riti Ólafs Páls Jónssonar á vef Heimspekistofnunar um gagnrýna hugsun og siðfræði í skólum, Sannfæring og rök, http://gagnryninhugsun.hi.is/?page_id=26 (Sótt 13. ágúst 2012).

Page 21: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

21

Rökvillur eru af mismunandi tagi, en til hægðarauka hefur fólk komið sér saman um nokkurs

konar flokkun rökvillna sem það vísar gjarnan til þegar það greinir rökvillur í röksemdum.

Hér gefur að líta nokkur dæmi:

Allsherjarrök

Röksemd sem hefur svo lausa tengingu við málefnið, að í raun mætti beita henni til

að styðja hvað sem er.

Hringrök

Það er þegar það sem átti að sanna er líka ástæða (eða forsenda) fyrir röksemdinni.

Kennivaldsrök

Þessi rök eru stundum kölluð nafnatog og vísa til þess þegar skoðun er réttlætt á

grundvelli þessi að einhver mikilsvirtur aðili hafi haldið henni fram.

Persónurök

Röksemd sem snýr að persónu viðmælandans, en ekki að því sem hann segir.

Vafasöm forsenda

Vísar, eins og nafnið gefur til kynna, til þess þegar röksemd hvílir á hæpnum

forsendum.

Stundum má fella eina rökvillu undir fleiri en einn flokk. Þannig mætti t.a.m. ímynda sér að

röksemd sem hvílir á kennivaldsrökum sé á sama tíma rökvilla af gerðinni vafasöm forsenda.

Fleiri rökvillur mætti tína til, en þessi upptalning ætti að duga sem kynning.45

Rökleikni/þrautir

Rökleikniþrautir eru af ýmsum toga. Þær eru hvers kyns leikir sem reyna á útsjónarsemi og

dýpri hugsun þátttakenda. Þetta er í raun sá þáttur rökfræðinnar sem snýr hvað mest að

sköpun. Notast má við hvaða leiki sem er. Sudoko-þrautir og skák46 eru eitt dæmi um leiki

sem reyna á dýpri hugsun, en það má líka hugsa sér fjölskylduþrautir sem þjálfa sömu leikni.

Oft eru einfaldir leikir, með einföldum fyrirmælum/reglum, skemmtilegustu og áhrifaríkustu

leikirnir. Svokallaðir eldspýtuleikir eru dæmi um ráðgátur sem vekja mikla lukku meðal

45 Sjá einnig grein Þorkels Einarssonar (2012) um Mælsku- og rökræðukeppni Internetsins? – Nokkrar algengar rökvillur og mælskubrögð, http://www.thorkell.net/greinar/maelsku-og-rokraedukeppni-internetsins-nokkrar-algengar-rokvillur-og-maelskubrogd/ (Sótt 13. ágúst 2012). 46 Sjá t.d. B. Hale (ritstj.). (2008). Philosophy Looks at Chess. Chicago: Open Court Press.

Page 22: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

22

skólabarna. Þá er oft vinsælt að teikna „eldspýturnar“ á töfluna og gefa síðan fyrirmæli sem

nemendur geta glímt við í hópum. Í eftirfarandi dæmi eru notaðar sextán eldspýtur sem

mynda fimm ferninga. Hér felst þrautin í því að færa þrjár eldspýtur, þannig að eldspýturnar

sextán myndi í staðinn fjóra hornrétta ferninga. Allar eldspýturnar verða að vera hluti af

ferhyrningi og mega þess vegna ekki standa út í loftið.47

Þegar maður hefur lagt svona þraut fyrir nemendur sína er oft einhver í hópnum sem kann

sambærilega þraut og getur lagt hana fyrir hópinn.

Rannsóknaraðferðir

Í stuttu máli má segja að það sem einkennir aðferðir og hugsunarhátt heimspekinnar sé

nákvæmni og vandvirkni. Það eru þau vinnubrögð sem geta af sér og leiða til skýrrar

hugsunar. Þegar nemendur öðlast leikni í heimspekilegum hugsunarhætti eykst sjálfstraust

þeirra. Slíkir eiginleikar munu nýtast þeim á öðrum sviðum og í öðrum námsgreinum.

Framsetning hugsana

Eins og ég kom inn á hér að ofan er það nauðsynlegur þáttur heimspekilegrar aðferðar að

setja fram hugsanir sínar með skýrum hætti. Þetta byrjar maður að þjálfa með ritgerða- og

greinaskrifum. Á grunnskólastigi þarf að sjálfsögðu að byrja á smáum skrefum. En seinna

meir mun slík leikni nýtast nemendum hvar sem þeir hafna í atvinnulífinu. Í þessu sambandi

er tilvalið að nota skapandi ritunarverkefni, en það eru verkefni þar sem nemendur fá

fyrirmæli þar sem hvatt er til sköpunar. Nokkur dæmi48:

Fréttaskýring

Ný frásögn af þekktri skáldsagnapersónu

47 R. Shushan (ritstj.). (1984). Games magazine big book of games. New York: Workman Publishing. 48 Hugmyndir nemenda í námskeiðinu Kennslu samfélagsgreina við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, vor 2012, en undirritaður var í þeim hópi.

Page 23: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

23

Útskýra skopmynd

Fimbulfamb/heilaspuni um ákveðna atburði

Skrifa í kringum myndir

Endursögn

Lygasögur

Ljóð

Leikrit

Skrifa gegn eigin málstað

3. Lögmál hugsunarinnar

3) Formlegar sannanir

Ekki er hægt að ætlast til þess að nemendur á grunnskóla stigi læri (nema ef til vill að

litlu leyti) formlegar sannanir í rökfræði. En þær ganga út á að sanna setningar í

setningafræði. Dæmi: Hér er þess freistað að sanna setninguna að af tveimur forsendum

(1) A og (2) ef A, þá B, hljótist niðurstaðan (N) ekki-ekki-B.

A → B, A ⊢ ~~B

A A → B [→E] __(1)

B ~B[Mótsögn]

ó (1) [~I]

~~B

Mótsagnir

Síðasta þrepið í sönnunni hér að ofan sýnir mótsögn, en þar er forsendan B látin vera sönn á

sama tíma og andstæða hennar, ekki-B líka er sönn. Af þessu hlýst mótsögn. Þetta hugtak

má að sjálfsögðu kynna á einfaldari hátt.

Neitanir

Nemendur hafa oft gaman af því að glíma við verkefni sem snúast um að neita fullyrðingu.

Gjarnan má kynna það á þann hátt að galdurinn snúist um að finna tilvik sem er á skjön við

það sem fullyrðingin segir. Með þessu á ég við að það er ekki endilega rétt að segja það

gagnstæða til þess að neita fullyrðingu. Ef ég segi „íslenskt vatn er best í heimi“ þá er

neitunin (í skilningi rökfræðinnar) ekki að segja „íslenskt vatn er verst í heimi“ eða „íslenskt

vatn er ekki best í heimi“, heldur að benda á einhverja tegund af vatni sem þykir betri en

Page 24: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

24

íslenskt vatn, t.d. „Færeyskt vatn er betra en hið íslenska og þess vegna getum við ekki sagt

að íslenskt vatn sé best í heimi.“ Ef hins vegar fullyrðingin fjallar um eitthvert eitt tiltekið

dæmi, þá er eina leiðin til að neita henni að hafna þessu sama tilviki. Ef fullyrðingin fjallar

um fá tiltekin tilvik getur reynst nauðsynlegt að tilgreina öll tilvik af gagnstæðu meiði.

Nokkur dæmi49:

Fullyrðing: Jón er meira en 180 cm að hæð; Neitun: Jón er er ekki meira en 180 cm að

hæð

Fullyrðing: Engir heimspekingar hafa gaman af því að tefla; Neitun: A.m.k. einn

heimspekingur hefur gaman að því að tefla.

Fullyrðing: Einhver heimspekingur er kúreki; Neitun: Enginn heimspekingur er kúreki.

Fullyrðing: Að minnsta kosti þrír heimspekingar eru kúrekar; Neitun: Í mesta lagi tveir

heimspekingar eru kúrekar eða Tveir eða færri heimspekingar eru kúrekar.

Samband tungumáls og reglna

Af ofansögðu má sjá að samband tungumáls og reglna er flókið. En það er einmitt með því

að takast á við þrautir og verkefni rökfræðilegs eðlis að nemendur öðlast færni til að hugsa

og tjá sig skýrt og skilmerkilega.

49 Haft, en stílfært, eftir lausnarblað frá Pétri Jóhannesi Óskarssyni, þ.v. aðstoðarmanni í Inngangi að rökfræði við Háskóla Íslands, haust 2006.

Page 25: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

25

Örfá lokaorð: um hlutverk rökfræðinnar innan heimspekinnar

Viðfangsefni heimspekinnar eru margvísleg. Með þessum hugleiðingum um hlutverk heimspekinnar

vonast ég til að hafa leitt í ljós annars vegar að heimspekileg hugsun sé rökfræðileg aðferð50 og hvað sé á

bak við þeirri fullyrðingu og hins vegar hvernig hin ólíku svið hugsunarinnar kallast á. Í stuttu máli má

segja að rökfræðileg hugsun sé mikilvægur (og oft nauðsynlegur) þáttur á öllum sviðum heimspekinnar.

Hún er nokkurs konar lím.

Í lærdómsriti Hins íslenska bókmenntafélags um Afstæðiskenninguna eftir Einstein (1970) má lesa í

inngangi Magnúsar Magnúsonar um það hvernig ritið allt byggir á rökfræðilegum vinnubrögðum. Allt frá

Aristótelesi fram á okkar tímum má finna ótal dæmi í sögunni um slíka hugsun að verki í heimspekilegum

(og vísindalegum) textum. Af kenningum og uppgötvunum Einsteins spretta nýir frjóangar á greinum

vísindanna. Ein fræði sem tók miklum framförum í kjölfar kenninga Einsteins eru heimsfræði, en þau fást

einkum við gátuna um upphaf og tilurð alheimsins. Ég hef ekki í hyggju að leysa þá gátu á þessum

blaðsíðum, en langar aðeins að fjalla um það hvernig viðfangsefni heimsfræðinnar og heimspekinnar

flettast saman á sameiginlegum, rökfræðilegum grundvelli. Fyrst ber að nefna hvernig skilningur manna

á tímahugtakinu jókst til muna eftir rannsóknir Einsteins og forvera hans. Einstein útskýrir að skilningur

manna á tímanum sé að ákveðnu leyti of flatur. Alltaf þegar við notum orðið tími þá séum við ómeðvitað

að vísa til hugtaks sem hann nefnir samtími. Þegar við segjum að eitthvað gerist á tilteknum tíma, þá

eigum við það að tveir (eða fleiri) atburðir séu samtíma atburðir. Í framhaldinu útskýrir hann vandann

við slíka fullyrðingu, þar eð atburðir í tíma eru í vissum skilningi háðir athugandanum. Þeir eru með

öðrum orðum afstæðir. Þess vegna dregur Einstein þá ályktun að til þess að geta talað af nákvæmni um

sérhvern hlut í hinu þrívíða rúmi, þá þurfi að hefja hann upp úr hinum flata skilningi hæðar, lengdar og

50 Frekara lesefni um rökfræði og hlutverk hennar innan heimspekinnar:

Arnljótur Ólafsson. (1891). „Rökfræði“. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags 12, bls. 177-240.

Erlendur Jónsson. (1997). Frumhugtök rökfræðinnar. Reykjavík: Erlendur Jónsson.

Erlendur Jónsson. (1998). Aðferðir rökfræðinnar. Reykjavík: Erlendur Jónsson.

Guðmundur Arnlaugsson. (1992). Rökfræði – Leiðarvísir um frumatriði rökfræðinnar. Reykjavík: Iðnú.

Ólafur Páll Jónsson. (2011). Sannfæring og rök. Sótt 19. júlí 2012 af vef verkefnisins Efling gagnrýninnar

hugsunar og siðfræði í skólum, http://gagnryninhugsun.hi.is/?page_id=26.

Þorsteinn Gylfason. (2011). Að hugsa á íslensku. Sótt 19. júlí 2012 af Heimspekivefnum,

http://heimspeki.hi.is/?p=2668.

Page 26: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

26

dýptar og auðkenna hann þannig þeim sértæka (en ekki altæka) tíma sem hann á við um. Þannig verður

til hugtakið tímarúm.51 Sannanir Einsteins fyrir þessari og fleirum tilgátum sem fram koma í

afstæðiskenningunum tveimur eru rökfræðilegar og byggja á stærðfræðilegum grunni. Nútíma

heimsfræði, sem sprettur af stóru leyti athugunum Einsteins, fæst við ráðgátuna um eðli náttúrunnar og

grundvöll tilverunnar. Með því að rannsaka uppruna alheimsins vonast vísindamenn til að geta svarað

ýmsum spurningum um náttúrulögmálin eins og t.d. hver uppruni þeirra sé og hvort gera megi

undantekningar frá þeim (kraftaverk)?52 Í grunninn eru þetta sömu spurningar og Aristóteles og forverar

hans glímdu við. Hlutverk heimspekinnar hefur frá örófa aldri verið að gæða manninn skilningi á

heiminum og veru sinni í honum, hvort heldur sem er í tíma eða í rúmi, andspænis upphafi og endi eigin

tilveru eða alls sem er. Það gerir hann kannski helst, ekki vegna svaranna sem eru vörður á leiðinni,

heldur vegna glímunnar sjálfrar. Og segja má að gagnrýnin hugsun leiði hann áfram á þeirri leið.

51 Nokkrum öldum áður hafði þýski heimspekingurinn Immanuel Kant (1724-1804) sett fram hugleiðingar þess efnis að tími getur ekki verið til án rúms og rúm getur ekki verið til án tíma. Hugmyndir Einsteins eru í samræmi við þessa skoðun. 52 Hawking, Stephen og Mlodinow, Leonard. (2011). Skipulag alheimsins (þýð. Baldur Arnarson og Einar H. Guðmundsson). Reykjavík: Tifstjarnan, bls. 37.

Page 27: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

27

Eftirmálsgreinar

Aristóteles

Grikkinn Aristóteles (384–322 f. Kr.) var lærisveinn Platóns og er einn af þekktustu og áhrifamestu heimspekingum

sögunnar. Hann skrifaði feikn rita um margvísleg efni og meðal þeirra er eitt höfuðrit siðfræðinnar, Siðfræði

Nikómakkosar (Ethica Nicomachea), sem sagt er að hann hafi tileinkað syni sínum, Nikómakkosi. Þar fjallar

Aristóteles fyrstur manna um siðfræði sem sérstaka fræðigrein og er hann því oft nefndur faðir siðfræðinnar.

Siðfræði Nikómakkosar skiptist í tíu bækur (eða hluta). Í þeirri fyrstu er leitað svara við því hvað sé

manninum raunverulega til góðs. Næstu fjórar fjalla um hinar siðferðilegu dygðir, en sú sjötta um þær andlegu.

Sjöunda bók greinir sérstaklega frá staðfestu og breyskleika auk þess sem ánægjan er þar til umræðu. Áttundu og

níundu bók tileinkar Aristóteles vináttunni, en í þeirri tíundu er fengist við sjálfa hamingjuna og tengsl hennar við

ánægjuhugtakið.

Siðfræði Aristótelesar verður lýst í stuttu máli, en þó má reyna að gefa einhverja hugmynd um helstu

atriði hennar. Aristóteles gengur að þeirri staðreynd vísri að líf manna einkennist að mestu af eftirsókn eftir margs

konar gæðum. Þó sækjast menn yfirleitt ekki eftir gæðunum þeirra sjálfra vegna, heldur vegna þess að þeir trúa að

þau muni færa þeim lífshamingju. Hamingjan er því þau gæði sem allt líf okkar miðar að. En jafnframt sér

Aristóteles órjúfanleg tengsl milli hamingju manns og siðferðilegs þroska hans. Siðferðisþroskinn ræðst á hinn

bóginn af uppeldinu og þeim venjum sem menn sér frá unga aldri. Jafnframt liggur hann í eðli mannsins því að hver

heilbrigð manneskja hefur í sér fólginn vísi að fullveðja siðgæðis- og skynsemisveru. Því ættu menn að taka sér til

fyrirmyndar hinn dygðuga mann, þann sem náð hefur fullum þroska og lifir hamingjusömu lífi. Með því að temja

sér að breyta eins og hann myndi gera verða hæfileikinn og tilhneigingin til slíkrar breytni smám saman greypt í

skapgerð manns. Þá, segir Aristóteles, hefur maður áunnið sér dygð, því að dygðin er skapgerðareinkenni sem lýsir

sér í því að manneskja ratar á rétt meðalhóf í breytni sinni. Það er hins vegar ómögulegt að segja til um það

fyrirfram hvað sé rétt meðalhóf í einstökum ófyrirséðum aðstæðum og þess vegna veltur dygð manns jafnt á góðri

tilfinningu fyrir aðstæðunum og því að kunna almennt skil á góðu og illu. Góð dómgreind er þannig höfuðeinkenni

dygðugs manns. Hún krest góðs uppeldis, almennrar þekkingar á því sem er okkur fyrir bestu og innsæis í einstakar

aðstæður.

Frekari fróðleik um siðfræði Aristótelesar er meðal annars að finna í Þáttum úr sögu siðfræðinnar eftir

Vilhjálm Árnason …

Páll Skúlason. (1990). Siðfræði – Um erfiðleika í siðferði og forsendur ákvarðana. Reykjavík: ERGO, bls.

180-181.

[Fara aftur í neðanmálsgrein 8]

Page 28: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

28

Immanuel Kant

Immanuel Kant (1724–1804) var þýskur heimspekingur og stærðfræðikennari. Kant taldi, að maðurinn gæti með

skynsemi sinni og frjálsum vilja sett lögmál um það sem á að vera auk þess að uppgötva lögmál um það sem er.

Með því er átt við lögmál sem maðurinn getur fylgt. Kant taldi að menn fylgdu í breytni sinni einhverri reglu þegar

þeir breyta ekki beinlínis af einhverri hvöt. Reglan getur hins vegar verið tvenns konar. Annars vegar eru

hagkvæmisreglur, sem segja mönnum hvað þeir eigi að gera til að ná tilteknu markmiði. Hins vegar eru siðareglur,

sem eru skilyrðislausar og ekki háðar neinu gefnu markmiði. Kant gekk síðan lengra og staðhæfði, að allar

siðareglur (eða siðaboð) ættu að lúta einni grundvallarreglu, sem stundum er kölluð alhæfingarreglan: „Breyttu

ævinlega á þann veg að reglan sem þú fylgir geti roðið almenn lög, gilt alls staðar og fyrir alla.“ (Sjá hugsun og

veruleiki, (Reykjavík 1975), s. 36-39. Aðgengilegan fróðleik um siðfræði Kants er einnig að finna í Þáttum úr sögu

siðfræðinnar, eftir Vilhjálm Árnason.)

Páll Skúlason. (1990). Siðfræði – Um erfiðleika í siðferði og forsendur ákvarðana. Reykjavík: ERGO, bls.

182.

[Fara aftur í neðanmálsgrein 12]

Rót siðferðisins og heillakenningin

Til er kenning sem leggur hvorki ímyndaðan sáttmála né siðferðilega stöðu mannsins til grundvallar siðferðinu,

heldur hugmyndina um það sem kemur mönnum að góðum notum bæði almennt og í einstökum tilfellum. Þessa

kenningu skulum við kalla heillakenningu. Skyldur okkar jafnt sem skuldbindingar ráðast þá af því sem við teljum

sannarlega vera til góðs og stuðla að farsæld og hamingju. Ef við tökum mið af þessari kenningu, getum við látið

liggja milli hluta hvor liggur dýpra í siðferðinu skyldan sem tengist stöðu manna eða skuldbindingin sem menn

gangast undir af fúsum og frjálsum vilja.

Kenning af þessum toga hefur birst í ótal útgáfum og afbrigðum.* Höfuðatriði hennar – með hliðsjón af því

sem hér er til umræðu – eru þau að siðferðileg hugsun komi til sögunnar um leið og okkur er ljóst að hagsmunir

annarra skipta máli ekki síður en okkar eigin og að við eigum að breyta á þann hátt að það hafi góðar (eða sem

skástar) afleiðingar fyrir sem flesta (eða alla sem hagsmuna eigi að gæta).

Heillakenning virðist heilbrigð skynsemi holdi klædd, enda hefur hún verið langvinsælasta siðfræðikenning

síðari tíma, þó að mér virðist ekki að hún hafi í för með sér fullkomna lausn á vandanum um rætur siðferðisins

Page 29: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

29

fremur en hinar tvær sem við höfum rætt, sáttmálakenningin og náttúrulagakenningin. En hún vísar okkur á nýjar

hliðar málsins.

Kjarni hennar er sá að siðaboðin – sem kveða á um skyldur okkar og skuldbindingar – eiga sér rætur í því

sem raunverulega skiptir fólki máli og þau beri því ævinlega að skoða í ljósi þeirra verðmæta sem í húfi eru. Menn

hafa skyldum að gegna og mönnum ber að skuldbinda sig með hliðsjón af þeim gæðum sem finna má í lífinu og

gera það þess virði að því sé lifað. Eða ef svo ber undir: fórnað. Því að lífið sjálft er aðeins eitt af öllu því sem við

metum til gæða í lífinu.

Lítum á dæmi sem ég vék að í síðasta kafla. Er okkur siðferðislega skylt að nota bílbelti? Svo virðist vera.

Helstu rökin fyrir því virðast mér vera að draga úr líkunum á alvarlegum miðslum bílstjóra og farþega þegar bíslys

verða. Ástæðan fyrir því að ýmis ríki hafa gert notkun bílbelta að lagaskyldu er á hinn bóginn sú að fjöldi bílstjóra og

farþega virðist ekki gera sér grein fyrir siðferðilegri ábyrg sinni í þessu sambandi eða sýnir vítavert kæruleysi.

Tjónið, s em fólk bíður við bílslys, bitnar ekki bara á þeim sem fyrir slysinu verða, heldur á þjóðfélaginu í heild sinni,

meðal annars vegna kostnaðar við rekstur sjúkrahúsa og endurhæfingarstöðva.

Nú kann einhver að andmæla því að um siðferðilega skyldu sé að ræða og því sé öldungis óviðunandi að

binda notkun bílbelta í lög. Hver gætu rök hans verið? Gætu þau verið að notkun bílbelta sé einkamál fólks og í

þessum efnum eigi frelsi einstaklings að gilda? Ég held ekki að þessu séu gild rök, því að í frelsinu felst enginn réttur

til að fara með gæði aða eigin geðþótta og allra sís gæði á borð við eigið líf.** Rökin sem mark er á takandi lúta að

því að undir vissum kringumstæðum eru líkur á að fólk hefði frekar sloppið lifandi og ómeitt frá bílslysum ef það

hefði ekki notað bílbelti. Og sé þetta rétt virðist ekki hægt að segja að notkun bílbelta sé undir öllum

kringumstæðum siðferðileg skylda. Þar sem slíkar aðstæður eru afar fátíðar og jafnvel ófyrirsjáanlegar má slá því

föstu að fólki sé siðferðilega skylt að nota bílbelti.

Heillakenningin felur í sér einn meginvanda sem er sá að þess virðist enginn kostur að skilgreina hamingju

á fullnægjandi hátt né heldur að gera grein fyrir því sem gerir eða getur gert Pétur eða Pál hamingjusaman. Það er

hægt að segja heilmargt um hamingjuna og hvað það er sem stuðlar að hamingju fólks eða kann að gera það

hamingjusamt. Sjálfur tel ég að unnt sé að skýra sæmilega vel nauðsynleg skilyrði þess að fólk geti verið

hamingjusamt.*** En fólk er svo ólíkt, aðstæður þess svo breytilegar, hæfileikar þess til að skynja og meta gildi

hlutanna svo misþroskaðir, að mér virðist fyrirfram augljóst að ekki sé hægt að gefa fólki öruggar uppskriftir að

hamingjusömu lífi. Ef þetta er rétt, þá virðist sérhver sú kenning sem vill leggja hamingjuna og hana eina til

grundvallar siðferðinu – með því að telja hana markmið mannlegrar breytni, það sem okkur beri að stuðla að – á

vissan hátt í lausu lofti. Við náum ekki að festa hendur á hinni raunverulegu hamingju einstaklinganna vegna þess

að við getum aldrei verið þess fullviss fyrirfram hvað muni raunverulega gera þá hamingjusama.

Lausnin á þessum vanda er fólgin í því að taka jafnt tillit til hamingju allra eða nánar sagt að líta svo á að

hamingja eins sé jafngild hamingju hvers annars. Um leið og við leitum eigin hamingju ber okkur að taka fullt tillit til

þess að aðrir kunna að fara allt aðrar leiðir í leit að sinni hamingju – og að okkar eigin hamingja á ekki að hafa

forgang fram yfir hamingju annarra.

Páll Skúlason. (1990). Siðfræði – Um erfiðleika í siðferði og forsendur ákvarðana. Reykjavík:

Rannsóknarstofnun í siðfræði, bls. 147-149.

[Fara aftur í neðanmálsgrein 1414]

Page 30: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

30

Nietzsche

Friedrich Nietzsche (1844–1900) var þýskur heimspekingur, og er þekktastur fyrir að hafa sett fram róttæka

gagnrýni á viðteknar siðferðishugmyndir samtíma síns. Nietzsche leitaðist við að greina uppruna mannlegs siðferðis

í ljósi þeirra félagslegu aðstæðna sem það hefur mótast af. Í þessu skyni tefldi hann fram hugtökunum

höfðingjasiðferði og þrælasiðferði, sem hann taldi vera tvær meginuppsprettur alls siðferðis. Nietzsche taldi að

siðferði Vesturlandabúa væri brennimerkt þrælasiðferðinu, sem er úrkynjað og dautt, að hugsjónin um

ofurmennið, sem sækur um sumt fyrirmynd sína til höfðingjasiðferðis, geti hrist af því slyðruorðið og lyft því upp á

æðra stig.

Höfðingjasiðferðið er sprottið úr aðstæðum þeirra sem mega sínmikils í mannfélaginu og drottna eða ríkja

yfir hinum lítilsmegandi. Höfðinginn lítur til sjálfs sín með velþóknun, hlutskipti hans er að vera „góður“ andspænis

hinum aumu og lítilsigludu. „Viljinn til valdsins“, sem Nietzsche taldi að væri grundvallarþáttur mannlegs eðlis, fær

hér að njóta sín óhidrað, en það felur í sér að maðurinn skapar sjálfur örlög sín, hann er höfundur lífs síns.

Þrælasiðferðið mótast af viðhorfi hinna undirokuðu til yfirboðara sinna. Þrælnum er huggun í að telja

sjálfan sig góðan en þann sem valdið hefur illan og ranglátan. Þrællinn er í eigin augum saklaust fórnarlamb

kúgarans. Í stað þess að treysta á eigin mátt leggur hann því allt traust á að æðri máttarvöld muni umbuna honum

á efsta degi, en refsa hinum ranglátu. Þrælslundin einkennist líka af svikum og undirferli, því að „viljanum til

valdsins“ er hamlað að fá útrás með öðrum hætti.

Nietzsche taldi að varpa bæri hinu spillta gildismati þrælasiðferðisins fyrir róða og byggja þess í stað upp

nýtt siðferði, sem tæki mið af hugsjóninni um ofurmennið, þeirri hugsjón sem setur heilindin í öndvegi ásamt stolti,

stórlyndi, visku og tillitssemi gagnvart hinum minnimáttar.

Meðal þekktustu rita Nietzsches eru Jenseits von Gut und Böse (1886) og Zur Genealogie der Moral (1887).

Samantekt sú sem hér er gerð á kenningum Nietzsches er að hluta til byggð á óbirtum fyrirlestri eftir Vilhjálm

Árnason, sem fluttur var á aðalfundiFélags áhugamanna um heimspeki í maí 1990.

Páll Skúlason. (1990). Siðfræði – Um erfiðleika í siðferði og forsendur ákvarðana. Reykjavík:

Rannsóknarstofnun í siðfræði, bls. 182.

[Fara aftur í neðanmálsgrein 23]

Page 31: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

31

Heimildaskrá

Arnljótur Ólafsson. (1891). „Rökfræði“. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags 12.

Aristóteles. (1995). Í Þorsteinn Hilmarsson (ritstj.), Siðfræði Níkomakkosar (þýð. Svavar Hrafn

Svavarsson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Atli Harðarson. (1996). „Efahyggja“. Í Andri Steinþór Björnsson, Torfi Sigurðsson og Vigfús Eiríksson

(ritstj.) Er vit í vísindum – sex ritgerðir um vísindahyggju og vísindatrú. Háskólaútgáfan:

Reykjavík, bls. 15-37. Sótt 10. ágúst 2012 af http://this.is/atli/textar/I_BOKUM/EFAHYGGJA.pdf.

Ármann Halldórsson og Róbert Jack. (2001). Hvað er heimspeki? – tíu greinar frá tuttugustu öld.

Reykjavík: Hugvísindastofnun Háskóla Íslands.

Björn Þorsteinsson. (2012). Framtíð lýðræðisins og lýðræði framtíðarinnar: Gagnrýnin hugsun í

skólastofunni og víðar. Sótt 26. september 2012 af vef verkefnisins Efling gagnrýninnar hugsunar

og siðfræði í skólum, http://gagnryninhugsun.hi.is/?p=1899.

Burnyeat, Myles. (1990). The Theaetetus of Plato (þýð. Levett, M.J.), Indianapolis og Cambridge: Hackett

Publishing Company.

Dr. Cornel West og Ken Wilber. (2004). The Roots of the Matrix. Í Wachowski, Larry og Wachowski, Andy

(leikstj.). Ultimate Matrix Collection (The Matrix), Warner Bros.

Erlendur Jónsson. (1997). Frumhugtök rökfræðinnar. Reykjavík: Erlendur Jónsson.

Erlendur Jónsson. (1998). Aðferðir rökfræðinnar. Reykjavík: Erlendur Jónsson.

Eyjólfur Kjalar Emilsson. (1997). „Inngangur“ í Platon. Ríkið. Fyrra bindi. Reykjavík: Hið íslenzka

bókmenntafélag.

Eyjólfur Kjalar Emilsson. (2005a). Hvað hafði Platón á móti skáldskap? Árásir Platóns á skáldskap í Ríkinu.

Sótt 5. júlí 2012 af Heimspekivefnum, http://heimspeki.hi.is/?page_id=555.

Eyjólfur Kjalar Emilsson. (2005b). Sólin, hellirinn og hugsanir Guðs. Hugleiðingar um Platonisma og

samtímaheimspeki. Sótt 5. Júlí 2012 af Heimspekivefnum, http://heimspeki.hi.is/?page_id=573.

Guðmundur Arnlaugsson. (1992). Rökfræði – Leiðarvísir um frumatriði rökfræðinnar. Reykjavík: Iðnú.

B. Hale (ritstj.). (2008). Philosophy Looks at Chess. Chicago: Open Court Press.

Hawking, Stephen og Mlodinow, Leonard. (2011). Skipulag alheimsins (þýð. Baldur Arnarson og Einar H.

Guðmundsson). Reykjavík: Tifstjarnan.

Kant, Immanuel. (2003). Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni (þýð. Guðmundur Heiðar

Frímannsson). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Page 32: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

32

Kristian Guttesen. (2006). Að eilífum friði. Siðfræði Kants lesin í friðarhugmyndum hans. Sótt 27. júní

2012 af http://skemman.is/item/view/1946/2817.

Kristian Guttesen. (2007). Hvaða sannleikskorn er í þeirri kenningu að þekking sé skynjun (ÞS)? Óbirt

skólaritgerð í námskeiðinu Inngangur að þekkingarfræði, haust 2007, Reykjavík: Háskóli Íslands.

Kristian Guttesen. (2010). Um merkingarfræði tilvísunarorða. Sótt 16. júlí 2012 af Heimspekivefnum,

http://heimspeki.hi.is/?p=1748.

Logi Gunnarsson. (2005). Stigi Wittgensteins. Reykjavík: Háskólaútgáfan Heimspekistofnun.

Morison, William. (2001). The Lyceum. Internet Encyclopedia of Philosophy. Sótt 19. febrúar 2013 af

http://www.iep.utm.edu/lyceum/

Nanna Hlín Halldórsdóttir. (2012). Persónuleg samskipti, 3. og 5. nóvember 2012.

Ólafur Jens Pétursson. (1985). Hugmyndasaga. Reykjavík: Mál og menning.

Ólafur Páll Jónsson. (2011a). Sannfæring og rök. Sótt 19. júlí 2012 af vef verkefnisins Efling gagnrýninnar

hugsunar og siðfræði í skólum, http://gagnryninhugsun.hi.is/?page_id=26.

Ólafur Páll Jónsson. (2011b). Lýðræði, réttlæti og menntun. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Páll S. Árdal. (1997). Siðferði og mannlegt eðli. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Páll Hreinsson, Sigríður Benediktsdóttir og Tryggvi Gunnarsson (ritstj.), Aðdragandi og orsakir falls

íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir (2010). Reykjavík: Rannsóknarnefnd Alþingis.

Páll Skúlason. (1987). Pælingar – Safn erinda og greina. Reykjavík: ERGO.

Páll Skúlason. (1990). Siðfræði. Reykjavík: Rannsóknarstofnun í siðfræði.

Páll Skúlason. (1995). Í skjóli heimspekinnar. Reykjavík: Háskólaútgáfan.

Pétur Jóhannes Óskarsson. (2006). Óbirtar glósur í Inngangi að rökfræði, haust 2006, Háskóli Íslands.

Rachels, James. (1997). Stefnur og straumar í siðfræði (þýð. Jón Á. Kalmansson). Reykjavík:

Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan.

Róbert Jack. (2011). Barnaheimspeki er rannsókn á möguleikum. Sótt 25. júní 2012 af vef verkefnisins

Efling gagnrýninnar hugsunar og siðfræði í skólum, http://gagnryninhugsun.hi.is/?p=886.

R. Shushan (ritstj.). (1984). Games magazine big book of games. New York: Workman Publishing.

Sigurlaug Hreinsdóttir. (2012). Persónuleg samskipti, 27. september 2012.

Svavar Hrafn Svavarsson. (1995). „Inngangur“. Í Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar (þýð. Svavar Hrafn

Svavarsson). Þorsteinn Hilmarsson (ritstj.). Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag.

Page 33: Hlutverk heimspekinnar eftir Kristian Guttesen · eru að finna eftirmáls- og viðbótargreinar eftir Pál Skúlason um ýmsa hugsuði og kenningar sem fjallað verður um. Í þessu

33

Vilhjálmur Árnason. (1990, 2. útg., 1 pr.; 1991, 2. útg., 2. pr.). Þættir úr sögu siðfræðinnar. Reykjavík:

Háskóli Íslands.

Wachowski, Larry og Wachowski, Andy (leikstj.). (2004). The Matrix. Í Ultimate Matrix Collection (The

Matrix), Warner Bros.

Ýmsir höfundar. (2012). Óbirtar glósur í Kennslu samfélagsgreina, vor 2012, Menntavísindasvið Háskóla

Íslands.

Þorkell Einarsson. (2012). Mælsku- og rökræðukeppni Internetsins? – Nokkrar algengar rökvillur og

mælskubrögð. Sótt 13. ágúst 2012 af http://www.thorkell.net/greinar/maelsku-og-

rokraedukeppni-internetsins-nokkrar-algengar-rokvillur-og-maelskubrogd/.

Þorsteinn Gylfason. (2011). Að hugsa á íslensku. Sótt 19. júlí 2012 af Heimspekivefnum,

http://heimspeki.hi.is/?p=2668.